Sveitarfélagið Árborg hefur fengið leyfi frá Umhverfisráðuneytinu til þess að fækka villtum kanínum í sveitarfélaginu. Kanínum hefur fjölgað á Selfossi og við ströndina eru íbúar að fá sig fullsadda af plágunni.
Jón Tryggvi Guðmundsson, tækni- og veitustjóri Árborgar, sagði í samtali við sunnlenska.is að kvartanir hafi borist frá íbúum ekki síst á Eyrarbakka og Stokkseyri og er sveitarfélagið að undirbúa aðgerðir til þess að fækka villtum kanínum í sveitarfélaginu.
Gríðarlega mikið er af kanínum í hesthúsahverfinu á Eyrarbakka og hafa þær valdið usla í görðum víða í þorpinu. Selfyssingar hafa heldur ekki farið varhluta af fjölguninni þar sem kanínum hefur fjölgað mikið í útjaðri Selfossbæjar í sumar, t.d. í Hagalandinu á bökkum Ölfusár.
Ekkert er því til fyrirstöðu að kanínur lifi af íslenskan vetur og hefur þeim fjölgað á landsvísu á undanförnum árum. Á Vísindavefnum kemur fram að kanínur lifa nær eingöngu á grasi á sumrin en á veturna éta þær ber, rætur, jafnvel trjágreinar og annað sem er í boði úr jurtaríkinu hverju sinni. Helsta ógn þeirra hérlendis er sennilega fæðuskortur sem fylgir mjög snjóþungum vetrum en vetur hafa verið snjóléttir á Íslandi undanfarin ár, sérstaklega sunnan- og vestanlands.
Villtar kanínur lifa á mjög köldum stöðum þannig að vetrarkuldinn einn og sér ætti ekki að vera nein fyrirstaða.