Nýr skáli Ferðafélags Íslands á Fimmvörðuhálsi var fluttur um helgina frá Skógum upp á hálsinn þar sem hann stendur nú við hlið gamla Baldvinsskálans sem yfirleitt er kallaður "Fúkki" – og ekki að ástæðulausu.
Það var Stefán Helgason, húsasmiður í Vorsabæ í Flóa, sem smíðaði skálann fyrir FÍ og flutti upp á hálsinn á vagni ásamt vöskum flokki manna með nokkrum vinnuvélum. Flutningurinn var ekki átakalaus enda um torfærur að fara en alls tók 72 klukkustundir að koma húsinu frá Vorsabæ og upp undir hálsinn. Síðasti spölurinn, frá Skógum og uppeftir, hófst kl. 8 á laugardagsmorgun og húsið var komið á sinn stað kl. 2 aðfaranótt mánudags.
Nýi skálinn er líkt og hinn fyrri A-laga bygging og er 63 fermetrar að flatarmáli. Með honum hyggst Ferðafélag Íslands koma betur til móts við þann mikla fjölda sem gengur yfir Fimmvörðuháls, sem er ein allra vinsælasta gönguleið landsins.
Gamli skálinn verður rifinn enda úr sér genginn. Síðustu ferðamennirnir sem gistu þar voru Ísraelar sem höfðust við í skálanum aðfaranótt laugardags og á leiðinni niður af hálsinum mættu þeir nýja skálanum þar sem hann silaðist upp veginn á Skógaheiði.
Skálanum ekið síðasta spölinn upp á hálsinn. sunnlenska.is/Klemenz Geir Klemenzson
Nýi skálinn er glæsilegur í alla staði en eins og sjá má er gamli skálinn orðinn heldur lúinn. sunnlenska.is/Klemenz Geir Klemenzson