Yrki arkitektar hlutu á dögunum heiðursviðurkenningu A'Design Award fyrir hönnun sína á vigtarhúsinu í Þorlákshöfn.
A’Design Award er ein stærsta árlega hönnunarsamkeppni í heimi, þar sem dómnefnd veitir hönnuðum, arkitektum og hönnunarfyrirtækjum alþjóðlega viðurkenningu.
Byggingu vigtarhússins í Þorlákshöfn lauk árið 2009 og hefur það hlotið mikla athygli allra sem lagt hafa leið sína um bryggjuna í Þorlákshöfn fyrir sérstakt form og áberandi lit byggingarinnar.
Hugmyndin að hönnuninni byggir á sjómennskunni. Sporöskjulagaðar útlínur byggingarinnar vísa til lífræns og líflegs starfsumhverfisins. Hinn skæri appelísnuguli litur byggingarinnar vísar til klæðnaðar sjómanna, sjóstakksins. Liturinn er áberandi, gerir sjómennina sýnilega og er að sama skapi fallinn til þess að gera vigtarhúsið mjög sýnilegt og auka öryggistilfinningu þeirra sem koma inn í höfnina.
Á vefsíðu A’Design Award, er hægt að lesa betur um hugmyndina á bakvið hönnunina og ýmislegt sem viðkemur byggingu vigtarhússins á vefsíðunni.