Stjórn Héraðssambandsins Skarphéðins mótmælir harðlega þeim hugmyndum sem fram hafa komið um að allt grunnnám í íþrótta- og heilsufræði verði flutt frá Laugarvatni til Reykjavíkur.
Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var á stjórnarfundi HSK á dögunum.
„Þessar hugmyndir hafa m.a. verið nefndar í skýrslu til rektors Háskóla Íslands sem nefnist Sóknarfæri í námi í íþrótta- og heilsufræði við Háskóla Íslands. Í skýrslunni eru birtir þrír möguleikar á breytingu á þessu námi. Eftir að skýrslan var birt hefur komið fram gagnrýni á framsetningu hennar og fullyrðingar í henni sem kalla á frekar skoðun á þessum málum og meiri íhugun á þeim möguleikum sem í boði eru,“ segir í ályktuninni.
Héraðssambandið Skarphéðinn eru samtök allra íþrótta- og ungmennafélaga í Árnes- og Rangárvallasýslum. Í ályktuninni kemur fram að sambandið hafi um árabil átt gott samstarf við skólayfirvöld og nemendur á Laugarvatni og vonast er til að svo verði áfram.