Áætlað er að nýtt 50 rýma hjúkrunarheimili verði tekið í notkun á Selfossi á öðrum ársfjórðungi 2019. Samkvæmt upplýsingum frá Velferðarráðuneytinu miðar verkefninu áfram samkvæmt áætlun.
Eins og sunnlenska.is greindi frá á sínum tíma var skrifað undir samning um byggingu hjúkrunarheimilsins í september síðastliðnum.
Heildarkostnaður við hjúkrunarheimilið án búnaðar er áætlaður tæpir 1,4 milljarðar króna og skiptist kostnaður milli ríkissjóðs, Framkvæmdasjóðs aldraðra og sveitarfélagsins Árborgar. Hlutur Árborgar í kostnaðinum er 218,4 milljónir króna.
Að sögn Sveins Bragasonar, sérfræðings í Velferðarráðuneytinu, er ekki tilgreint sérstaklega á fjárlögum ársins 2017 hversu miklir fjármunir eru áætlaðir í framkvæmdina í Árborg. Hins vegar er gert ráð fyrir kostnaði við uppbyggingu fjögurra hjúkrunarheimila, en hjúkrunarheimilið í Árborg er eitt þeirra, og mun kostnaður skiptast niður miðað við framvindu hvers verkefnis.
Sveinn á sæti í starfshópi um byggingu hjúkrunarheimilisins en ásamt honum eru í hópnum Ásta Stefánsdóttir og Ari Björn Thorarensen, fulltrúar Árborgar, Bryndís Þorvaldsdóttir fulltrúi velferðarráðuneytisins og Sigurður Norðdahl fulltrúi Framkvæmdasýslu ríkisins.
Starfshópurinn hefur haldið þrjá fundi síðan í nóvember og er næsti fundur þann 6. janúar. Á fundunum hafa verið ræddar mögulegar og æskilegar leiðir við val á ráðgjöfum og tímaáætlanir.
Hjúkrunarheimilið á Selfossi verður reist á lóð Heilbrigðisstofnunar Suðurlands við Árveg. Staðsetning bygginga á lóðinni hefur einnig verið rædd á fundum starfshópsins og hefur Framkvæmdasýsla ríkisins látið gera prufuholur á ákveðnum svæðum lóðarinnar til að kanna burðarhæfi jarðvegs.