Fjölmenni var við Laugarvatn þegar tekin var fyrsta skóflustungan að nýju 750 fermetra gufubaði fyrir skömmu.
„Það má segja, að við höfum verið heppnir að hafa ekki byrjað fyrir hrun eins og til stóð. Annars væri staðan ef til vill ekki svo beysin, eins og við þekkjum annars staðar,“ sagði Sigurður Grétar Ólafsson, stjórnarformaður Gufu ehf. á athöfninni.
Það kom í hlut Elínar Bachmann Haraldsdóttur, formanns Hollvina Laugardals, að taka fyrstu skóflustunguna. Félagið hét áður Hollvinafélag gufubaðs og smíðahúss en nafni þess var breytt eftir að þær byggingar voru látnar víkja fyrir hinni nýju aðstöðu.
Heildarkostnaður er áætlaður um 400 milljónir króna. Þrjátíu verktakar gerðu tilboð í framkvæmdina en gengið hefur verið að samningum við fyrirtækið SÁ verklausnir frá Reykjavík.
Áætluð verklok eru í maí 2011.