Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur lagt fram hugmyndir um að veggjald á leiðinni á milli Reykjavíkur og Selfoss verði 200 krónur.
Þetta kom fram á fundi ráðherra með sveitastjórnarmönnum og fulltrúum SASS fyrir skömmu.
Sunnlendingar hafa lagt á það áherslu að engin gjaldtaka verði vegna nýframkvæmda austur fyrir fjall nema að gjaldtaka verði einnig sett á aðra sambærilega vegi, s.s. Reykjanesbrautina og Vesturlandsveg. 200 krónurnar miða við að slík samræmd gjaldtaka fari fram.
Áður hefur verið miðað við að framkvæmdin kosti um 20 milljarða króna og 370 krónur þurfi til að standa undir því. Að sögn Þorvarðar Hjaltasonar, framkvæmdastjóra SASS, hafa Sunnlendingar kynnt hugmyndir sem gætu lækkað kostnaðinn í 16,5 milljarð króna.
Ekki er miðað við að gjaldtaka hefjist fyrr en eftir fimm ár.