Sveitarstjórn Bláskógabyggðar andmælir því að Hagavatnsvirkjun verði sett í biðflokk í rammaáætlun og mælist eindregið til þess að virkjunin verði í staðinn færð upp í orkunýtingarflokk.
Hreppsnefnd Hrunamannahrepps tekur undir þetta með Bláskógabyggð.
Að sögn Drífu Kristjánsdóttur, oddvita Bláskógabyggðar er sveitarstjórn ósátt við að virkjunin hafi verið sett í biðstöðu á grundvelli lítilla rannsókna. Bendir hún á að á sínum tíma hafi bæði sveitarfélagið og Landgræðslan látið vinna mat á umhverfisáhrifum þess að hækka vatnsborð Hagavatns með því að stífla Farið, í þeim tilgangi að hefta sandfok og endurheimtagróðurþekju á nærliggjandi svæðum. Þá hafi sveitarstjórn hug á að nýta þá framkvæmd til orkuframleiðslu til að auka hagkvæmni hennar. Segir hún virkjunina vera umhverfisvæna útfærslu.
Ætlunin er að rennslisvirkjun við Hagavatn verði nýtt til að tryggja stöðugra vatnsyfirborð ofan stíflu, rafmagnstengingar verði að mestu í jarðstrengjum og vegslóðar og reiðleiðir verði samræmdar til að stemma stigu við utanvegaakstur.
Við útfærslu virkjunarinnar gefst einnig kostur á að opna fyrir ýmsa möguleika á frekari tengingu við starfsemi ferðaþjónustu á svæðinu.
Sveitarstjórn leggur áherslu á að með framkvæmdinni er verið að endurheimta fyrra horf Hagavatns, hefta jarðvegsfok, auka möguleika á landgræðslu og bæta lífsgæði íbúa á áhrifasvæði uppfoksins. Umhverfis- og skipulagsnefnd SASS hefur líka ályktað í þá veru að vatnsyfirborð Hagavatns verði fært til upprunalegs horfs.
Ráðgert er að uppsett afl Hagavatnsvirkjunar verði 20 MW og að áhrifasvæði hennar nái yfir ferðasvæðin Hagavatn, Hveravelli, Hrunamannaafrétt og Gullfoss.