Set missti af 500 milljóna króna verkefni

Verksmiðja Set á Selfossi. Ljósmynd/AYA

,,Það er erfitt að sjá á bak þessu verkefni en þetta er eina nýframkvæmdin sem við vitum af á hitaveitusviði á landinu á næsta ári,” segir Bergsteinn Einarsson, framkvæmdastjóri röraverksmiðjunnar Set, en fyrirtækið átti næst lægsta boð í stórt verk á Norðurlandi.

Rarik bauð nýlega út efni vegna einnar stærstu framkvæmdar á sviði hitaveitulagnar sem ráðist hefur verið í hér á landi um árbil. Útboð vegna framleiðslu, flutnings og afhendingar á foreinangruðum stálpípum ásamt tengi og samsetningaefni fyrir stofnpípu Hitaveitu Blönduóss frá Reykjum á Húnavöllum til Skagastrandar og plastpípum fyrir dreifikerfi nýrrar hitaveitu á Skagaströnd og í nærliggjandi í dreifbýli.

Um opið útboð var að ræða og var það auglýst á Evópska efnahagssvæðinu (EES). Tilboð voru opnuð þann 9. nóvember sl. og reyndist tilboð Set ehf. næst lægst af sex tilboðum sem bárust í verkefnið en auk Set sendu þrír erlendir framleiðendur inn tilboð.

Rarik hefur ákveðið að ganga til samninga við lægstbjóðanda, danska fyrirtækið Lögstör Rör AS en tilboð þeirra hljóðar upp á 2.919.062 evrur með virðisaukaskatti, eða sem nemur um 465 milljónum íslenskra króna. Tilboð Set var 7,7% hærra, eða 3.160.993 evrur og önnur tilboð enn hærri.

Að sögn Bergsteins er verkefnið óvenjustórt og eftir þann samdrátt sem fyrirtækið hefur mátt þola í framleiðslu fyrir innlendan markað síðan 2009 þá hefði þetta orðið kærkomin viðbót, þýtt fleiri störf og aukin afleidd áhrif inn í samfélagið.

,,Við gerðum okkur hins vegar grein fyrir að á brattann yrði að sækja því eftir að við hófum framleiðslu í Þýskalandi fyrir einu og hálfu ári höfum við kynnst þeirri gríðarlegu samkeppni sem þar ríkir. Það verð sem verkið fer á er hins vegar óvenju lágt og á mörkum fasts kostnaðar. Við erum að loka góðu ári þar sem útflutningur og erlend starfsemi eru orðin um þriðjungur umsvifanna og við horfum bjartsýn fram á veginn,” sagði Bergsteinn.

Fyrri greinGönguleið við Gullfoss lokað
Næsta greinGámaþjónustan bauð lægst