Keppendur frá HSK náðu frábærum árangri í motocrosskeppni Unglingalandsmótsins á Selfossi í dag og sigruðu í fjórum flokkum.
Alls tóku 32 keppendur þátt í motocrosskeppni Unglingalandsmótsins og komu tólf þeirra frá HSK. HSK vann þrefaldan sigur í tveimur flokkum, púkaflokki 11-12 ára og 85cc flokki 12-13 ára.
Í púkaflokki sigraði Þorkell Hugi Sigurðarson, Arnar Freyr Viðarsson varð annar og Anton Vogfjörð Óskarsson þriðji. Þorkell Hugi var á svæðinu að fylgjast með Þorsteini Helga bróður sínum en honum var boðið lánshjól til að keppa á tíu mínútum fyrir ræsingu og gerði hann sér lítið fyrir og sigraði í flokknum.
Í 85cc flokki 12-13 ára sigraði Elmar Darri Vilhelmsson, Ólafur Atli Helgason varð annar og Sindri Steinn Axelsson þriðji. Allir keppa þeir fyrir Umf. Selfoss. Í úrslitunum tók Elmar Darri vel á bensíngjöfinni og bætti sig um 15 sekúndur frá sínum besta á hring, fór úr 2:16 mín niður í 2:01 mín.
Þorsteinn Helgi Sigurðarson sigraði svo í 85cc flokki 14-15 ára og ók af fádæma öryggi.