Guðmunda Óladóttir tryggði Selfyssingum sætan sigur á HK/Víkingi í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld með marki í uppbótartíma. Lokatölur voru 1-2.
Leikurinn var í jafnvægi fyrsta hálftímann en Selfyssingar fengu fleiri færi. Guðmunda braut svo ísinn á 29. mínútu með frábæru marki þegar hún lék á nokkra varnarmenn HK/Víkings og þrumaði svo í þverslána og inn með skoti hægramegin úr vítateignum. Skömmu síðar átti Erna Guðjónsdóttir gott skot að marki sem fór rétt framhjá. 0-1 í hálfleik.
Heimakonur jöfnuðu metin í upphafi síðari hálfleiks með marki eftir hornspyrnu. Guðmunda hélt áfram að vera aðgangshörð í framlínu Selfoss en HK/Víkingur átti betri færi eftir jöfnunarmarkið.
Síðasta korterið settu Selfyssingar síðan aftur í gírinn og sóttu stíft að marki HK/Víkings en heimaliðið varði fimlega. Andrea Ýr Gústavsdóttir var tvívegis nálægt því að skora á síðustu fimm mínútum leiksins en þegar þrjár mínútur voru komnar framyfir venjulegan leiktíma slapp Guðmunda ein innfyrir og kláraði vel framhjá fyrrum liðsfélaga sínum, Nicole McClure, sem nú stendur í marki HK/Víkings.
Eftir umferð kvöldsins er Selfoss í 5. sæti deildarinnar með 13 stig og mætir næst Val á heimavelli mánudaginn 1. júlí en Valur er í 4. sæti með 14 stig.