Selfyssingar töpuðu 2-1 þegar þeir heimsóttu KF á Ólafsfjörð í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Tveimur mönnum færri náðu heimamenn að tryggja sér sigurinn.
Selfyssingar voru sterkari í fyrri hálfleik og komust yfir á 26. mínútu þegar Juan Martinez koraði en heimamenn jöfnuðu aðeins tveimur mínútum síðar með marki frá Gabríel Reynissyni og staðan var 1-1 í hálfleik.
Á fyrsta korterinu í síðari hálfleik fækkaði dómarinn síðan heimamönnum um tvo, en þeir fengu að líta rauð spjöld á 57. og 59. mínútu. Tveimur mönnum fleiri náðu Selfyssingar ekki að brjóta vörn KF á bak aftur og KF virtist frekar eflast við mótlætið.
Selfyssingar áttu álitlegar sóknir en KF átti næsta leik þegar þeir geystust hins vegar í snarpa sókn á 75. mínútu þar sem brotið var á einum þeirra innan teigs og vítaspyrna niðurstaðan. Þórður Birgisson fór á punktinn og kom KF í 2-1.
Gunnar Guðmundsson, þjálfari Selfoss, gerði þrefalda skiptingu strax eftir vítaspyrnuna þar sem þeir Bernard Brons, Magnús Ingi Einarsson og Einar Ottó Antonsson komu inná fyrir Sigurð Eyberg, Inga Rafn Ingibergsson og Ingólf Þórarinsson.
Selfyssingar voru grimmir á síðustu tíu mínútunum en heimamenn voru þéttir til baka og lokuðu á allar boðleiðir inn í vítateiginn. Selfoss náði þó að skapa töluverðan usla í uppbótartímanum án þess að skora. Einar Ottó komst reyndar á blað en hann var tæpar fimm mínútur að uppskera gult spjald eftir að hann kom inná.
Selfyssingar voru skiljanlega súrir á svip í leikslok en heimamenn fögnuðu gríðarlega. Þegar deildin er hálfnuð er Selfoss í 8. sæti deildarinnar með 14 stig og leikur næst gegn KA á útivelli á laugardaginn.