Eftir þrjátíu daga hlé hófst keppni í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld. Selfoss tók á móti Þrótti R og vann sanngjarnan 4-2 sigur.
Gunnar Borgþórsson gerði nokkrar breytingar á liði sínu. Inga Lára Sveinsdóttir kom í markið í fjarveru Michele Dalton sem var í leikbanni. Tveir nýir lánsmenn frá Val, Svana Rún Hermannsdóttir og Katla Rún Arnórsdóttir komu einnig inn í byrjunarliðið, Svana Rún á vinstri kantinn og Katla í vörnina.
Upphafsmínúturnar einkenndust af mikilli baráttu á báða bóga úti á vellinum en fyrstu færi leiksins duttu Þróttar megin. Bergrún Björgvinsdóttir bjargaði á línu mðe skalla strax á 6. mínútu eftir hornspyrnu Þróttara og sex mínútum síðar áttu gestirnir hættulega aukaspyrnu, rétt framhjá marki Selfoss. Á 17. mínútu voru Þróttarar enn aðgangsharðir og aftur fór boltinn rétt framhjá Selfossmarkinu eftir hornspyrnu.
Á 22. mínútu komust gestirnir yfir. Selfossliðið missti boltann á hættulegum stað og Þorlákshafnar-Þróttarinn Margrét María Hólmarsdóttir lét vaða að marki yfir Ingu Láru sem misreiknaði boltann – og í netið fór hann.
Þetta var það sem þurfti til að kveikja almennilega í Selfossliðinu. Strax í næstu sókn átti Valorie O’Brien skot rétt yfir mark Þróttar og fjórum mínútum síðar átti Svana Rún skot af stuttu færi eftir undirbúning Valorie en markvörður Þróttar varði vel.
Svana jafnaði hins vegar leikinn á 27. mínútu þegar hún átti skot að marki sem markvörður gestanna varði, Þrótturum mistókst hins vegar að hreinsa, boltinn fór í magann á Guðmundu Óladóttur og þaðan fyrir fætur Svönu sem skoraði án nokkurra vandræða.
Tveimur mínútum síðar gerði Selfoss harða hríð að marki Þróttar og ljóst var að eitthvað varð undan að láta. Erna Guðjónsdóttir átti hörkuskot sem Þróttarar komust fyrir en frákastið féll fyrir fætur Guðmundu sem lagði knöttinn af öryggi í netið – 2-1.
Selfyssingar voru ekki hættir og áttu álitlegar sóknir í kjölfarið og þriðja mark liðsins kom svo á 42. mínútu þegar Valorie sneri laglega af sér varnarmann og skoraði með góðu skoti úr teignum. 3-1 í hálfleik.
Í síðari hálfleik var ekkert að frétta framan af, klafs úti á velli og gæði knattspyrnunnar lítil. Þróttarar reyndu tilþrifalítil langskot en síðustu tuttugu mínúturnar lifnaði þó aðeins yfir leiknum.
Á 68. mínútu bað Gunnar þjálfari um að liðið myndi stíga upp og pressa og Guðmunda svaraði því samstundis með því að vinna boltann af varnarmanni Þróttar. Guðmunda slapp inn í teig og átti ágætt skot sem öruggur markvörður Þróttar varði vel. Örskömmu áður hafði Anna Garðarsdóttir komið inná í sínum fyrsta leik í sumar eftir erfið meiðsli í vetur.
Á 71. mínútu slapp Soffía Kristinsdóttir innfyrir vörn Selfoss og vinstra megin inn í vítateig en skot hennar fór rétt framhjá fjærstönginni. Selfyssingar voru værukærir á þessu augnabliki og það sama var uppi á teningnum á 77. mínútu þegar Þróttarar sendu langa sendingu innfyrir vörn Selfoss þar sem Ásgerður Pálsdóttir tók við boltanum og kláraði færið vel framhjá Ingu Láru og minnkaði muninn í 3-2.
Á þessu augnabliki fór um marga stuðningsmenn Selfoss og öruggum sigri virtist nú teflt í tvísýnu. Selfyssingar önduðu því léttar þegar Guðmunda kom þeim í 4-2 á 84. mínútu en markið var einkar snyrtilegt. Þróttarar tóku hornspyrnu og fjölmenntu inn í vítateig en ekkert varð úr spyrnunni og Selfoss brunaði í sókn. Svana Rún átti góða sendingu innfyrir á Guðmundu sem lyfti boltanum laglega yfir markvörð Þróttar.
Undir lokin voru Selfyssingar nær því að bæta við en besta færið fengu varamennirnir Anna Garðarsdóttir og Anna Friðgeirsdóttir. Þær sluppu báðar innfyrir vörn Þróttar á 89. mínútu en hlupu saman og markvörður Þróttara náði boltanum.
Með sigrinum fór Selfoss upp í 5. sæti deildarinnar með 16 stig en næsti leikur liðsins er fimmtudaginn 8. ágúst gegn FH á heimavelli.