Selfoss og FH skildu jöfn, 0-0, þegar liðin mættust í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu á Selfossvelli í kvöld. Selfyssingar spiluðu manni fleiri í 40 mínútur en náðu ekki að nýta liðsmuninn.
Leikurinn var ekki tilþrifamikill og eftir markalausan fyrri hálfleik, þar sem bæði lið áttu þó sín færi, dró til tíðinda strax í upphafi seinni hálfleiks.
Þá fékk varnarmaður FH rauða spjaldið fyrir að brjóta á Guðmundu Óladóttur sem sloppin var í gegnum vörnina. Manni færri efldust FH-ingar og voru líklegri aðilinn stærstan hluta síðari hálfleiks á meðan Selfyssingum gekk illa að finna taktinn.
Niðurstaðan varð 0-0 jafntefli þannig að Selfoss situr áfram í 5. sæti deildarinnar, á tiltölulega auðum sjó með 17 stig.