Selfyssingar gerðu svekkjandi jafntefli við Tindastól í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Lokatölur voru 1-1 en Stólarnir jöfnuðu á síðustu sekúndu leiksins.
Ingólfur Þórarinsson kom Selfyssingum yfir með marki úr vítaspyrnu í fyrri hálfleik og staðan var 0-1 allt þar til á fimmtu mínútu uppbótartíma að Ingvi Hrannar Ómarsson skallaði boltann í netið og jafnaði fyrir Stólana. Selfyssingar tóku miðju og dómarinn flautaði leikinn samstundis af.
Eftir að sextán umferðir hafa verið leiknar hafa Selfyssingar hreiðrað um sig í kjallaranum, með 18 stig í 9. sæti og þremur stigum frá fallsæti. Lærisveinar Gunnars Guðmundssonar þurfa því að fara að girða sig í brók og sýna lit í næstu leikjum en þeir eru gegn Völsungi og Þrótti sem einnig eru í fallbaráttu.