Selfoss tók á móti HK/Víkingi í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld. Eftir 90 rigningarmínútur skildu liðin jöfn og markalaus.
Heilt yfir var leikurinn nokkuð jafn en Selfoss skapaði sér betri marktækifæri. Selfoss siglir lygnan sjó um miðja deild en HK/Víkingur barðist fyrir sínu stigi í kvöld og liðið á enn von á að halda sæti sínu í Pepsi-deildinni með þriggja marka sigri á Aftureldingu í lokaumferðinni.
„Mér fannst þetta nokkuð gott en ég er óánægður með að hafa ekki unnið leikinn. Við nýttum ekki okkar færi og það er eiginlega bara það sem vantaði uppá. Varnarleikurinn var nokkuð góður og sóknin betri en oft áður. Við fengum að minnsta kosti þrjú dauðafæri sem nýttust ekki en við lærum bara af þessu og það þýðir ekki að pirra sig á því,“ sagði Gunnar Borgþórsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
Leikurinn skipti Selfoss ekki miklu máli upp á stöðuna í deildinni að gera en Gunnar segir að liðið hafi sett sér það markmið að komast einu sæti ofar.
„Við settum þetta upp sem úrslitaleik hjá okkur, okkur langaði að komast ofar á töflunni og hefðum átt möguleika á því ef við hefðum unnið og Þór/KA tapað sínum leik. Við settum okkur líka annað markmið, að vera efstar af þessum fimm liðum í neðri hlutanum. Við bjuggum okkur til fimm liða deild þar og það markmið er að nást í dag. Það er gott.“
Síðasti deildarleikur Selfyssinga í sumar er á laugardaginn kl. 16:15 gegn Val á útivelli.