Joseph Yoffe, leikmaður knattspyrnuliðs Selfoss, íhugar að lögsækja FIFA vegna reglna um félagaskipti á milli landa.
Fótbolti.net greinir frá þessu
Yoffe hefur leikið með Selfyssingum í 1. deildinni í sumar en tímabilinu þar lýkur eftir rúma viku. Þá er þessi 26 ára gamli leikmaður ,,lokaður inni“ á Íslandi því að félagaskiptaglugginn í flestum löndum opnar ekki fyrr en í janúar.
Yoffe er ósáttur við þetta þar sem hann verður samningslaus um mánaðarmót og telur að þá eigi hann að geta án vandræða gengið til liðs við félag í öðru landi. Yoffe segir að þetta hamli réttindum hans til þess að skipta um starf sem á að vera tryggt undir lögum Evrópusambandsins.
Á ferli sínum hefur Yoffe leikið í neðri deildunum á Englandi, Spáni, Kanada, Ástralíu og Írlandi og hann vill geta gengið til liðs við nýtt félag þegar samningurinn við Selfoss rennur út. Því íhugar hann nú að lögsækja FIFA.
,,Þetta er eitthvað sem ég hef íhugað mikið og það eru margir sem eru í sömu stöðu og ég,“ sagði Yoffe við Reuters fréttastofuna.
,,Samningur þinn er að renna út og þú getur ekki samið við nýjan vinnuveitanda í þrjá eða fjóra mánuði. Þetta er ekki svona í neinu öðru starfi í heiminum.“
Ef að Yoffe fer í mál gegn FIFA gæti það orðið stærsta félagaskiptamálið í fótboltanum síðan belgíski leikmaðurinn Jean-Marc Bosman vann frægan sigur árið 1995 um að félög geta ekki krafist greiðslu fyrir samningslausa leikmenn.
Yoffe er einnig ósáttur við þá reglu FIFA að leikmaður megi ekki semja við fleiri en tvö félög á einu ári.
,,Leikmenn sem eru á toppnum eru í góðum málum fjárhagslega og þetta hefur ekki áhrif á þá. Fyrir okkur sem höfum ekki náð þessum árangri þá er þetta mjög erfitt,“ sagði Yoffe.