Þrátt fyrir að halda boltanum meirihluta leiksins og sækja stíft að marki gestanna tókst Selfyssingum að tapa 2-3 þegar þeir fengu fallið lið KF í heimsókn í 1. deild karla í knattspyrnu í dag.
Boltinn hélst innan raða Selfossliðsins nánast allan fyrri hálfleikinn en gestirnir skoruðu úr eina marktækifæri sínu í fyrri hálfleik, strax á 6. mínútu leiksins. Það vantaði ekki færin Selfossmegin en Svavar Berg Jóhannsson og Javier Lacalle áttu skot og skalla, rétt framhjá marki KF.
0-1 í hálfleik en í síðari hálfleik var það sama uppi á teningnum. Selfyssingar sóttu meira og þeir uppskáru jöfnunarmark á 55. mínútu. Andy Pew afgreiddi þá boltann snyrtilega í netið af stuttu færi eftir innkast. Nokkrum sekúndum áður höfðu gestirnir bjargað á línu þegar Andy skallaði að marki eftir horn.
Selfoss hélt áfram að sækja en KF lá til baka og reyndi skyndisóknir. Gestirnir voru nálægt því að komast yfir á 66. mínútu þegar slæm sending úr vörn Selfoss rataði beint á sóknarmann þeirra, sem kominn var innfyrir en skaut rétt framhjá. Sex mínútum síðar komst KF svo í 1-2 þegar sóknarmaður þeirra náði boltanum af Sindra Snæ Magnússyni með því að brjóta á honum og hamraði knöttinn í netið.
Eitthvað virtist dómarinn sakbitinn yfir því að hafa gefið gestunum mark því strax tæpri mínútu síðar gaf hann Selfyssingum vítaspyrnu þar sem hann taldi að brotið hafði verið á Javier Zurbano. Spánverjinn fór sjálfur á punktinn og skoraði af öryggi í hægra hornið.
Undir lokin lágu Selfyssingar þungt á gestunum en það kom í bakið á þeim því á 86. mínútu brunuðu norðanmenn í skyndisókn og skoruðu 2-3. Selfoss sótti allt hvað af tók á lokamínútunum og trekk í trekk skapaðist mikill darraðardans inni í vítateig KF sem hélt út og sigraði.
Selfoss lauk keppni í 1. deildinni í 8. sæti með 27 stig.