Selfoss tapaði 24-29 þegar ÍBV kom í heimsókn í Olís-deild kvenna í handbolta í dag. Leikurinn var í járnum langt frameftir leik en Selfoss gaf eftir í lokin.
Fyrri hálfleikur var frábær skemmtun þar sem liðin lögðu mun meira kapp á sóknarleikinn en varnarleikinn. ÍBV byrjaði betur og komst í 0-3 en Selfoss jafnaði 3-3 og eftir það var jafnt á nánast öllum tölum. Staðan var 17-16 í hálfleik, Selfyssingum í vil.
Selfoss náði þriggja marka forystu í upphafi síðari hálfleiks, 19-16 og hélt forystunni fyrstu fimmtán mínútur síðari hálfleiks. Þær náðu hins vegar ekki að láta kné fylgja kviði og misstu dampinn þegar tveir leikmenn fengu tveggja mínútna brottvísanir með stuttu millibili. ÍBV jafnaði 23-23 og komst fljótlega tveimur mörkum yfir.
Eyjaliðið náði fjögurra marka forskoti þegar rúmar sex mínútur voru eftir af leiknum og á þeim tímapunkti fjaraði leikurinn all snarlega út. Liðin skoruðu ekki mark í rúmar fimm mínútur og raunar náðu Selfyssingar aðeins að skora eitt mark á síðustu sextán mínútum leiksins.
Thelma Sif Kristjánsdóttir, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir og Kara Rún Árnadóttir skoruðu allar fimm mörk fyrir Selfoss, Þuríður Guðjónsdóttir skoraði fjögur, Tinna Soffía Traustadóttir þrjú og þær Hildur Öder Magnúsdóttir og Hulda Dís Þrastardóttir skoruðu sitt markið hvor.
Áslaug Ýr Bragadóttir varði átta skot í marki Selfoss og var með 28,6% markvörslu.