Borghildur Valgeirsdóttir, Umf. Selfoss, náði frábærum árangri í München maraþonhlaupinu í Þýskalandi á sunnudag og kom í mark á nýju HSK meti.
Borghildur hljóp á 3:19,51 klst og varð í 70. sæti í kvennaflokki af tæplega 1.260 keppendum og í 14. sæti í sínum aldursflokki.
Með þessum árangri stórbætti hún héraðsmet Bjarkar Steindórsdóttur, Umf. Selfoss, sem staðið hefur síðan 2008 en tími Bjarkar í Reykjavíkurmaraþoninu það árið var 3:38,51 klst.
Alls tóku 33 Íslendingar þátt í maraþonhlaupinu í München og náði Borghildur besta árangri þeirra allra.
Jón Gísli Guðlaugsson, Hamri, hljóp á 3:35,11 klst, Daldís Ýr Guðmundsdóttir, Umf. Selfoss, á 3:42,22 klst, Jakob Fannar Hansen, Hamri, á 4:22,15 klst, Pétur Ingi Frantzson, Hamri, á 4:22,40 klst og Guðný Karólína Axelsdóttir, Hamri, á 4:31,06 klst.