Karlalið Selfoss í knattspyrnu fær að minnsta kosti einn leikmann til liðs við sig frá Brentford á Englandi á næsta ári. Þetta er niðurstaðan úr heimsókn forsvarsmanna liðsins til Brentford á dögunum.
Óskar Sigurðsson formaður knattspyrnudeildar segist mjög ánægður með að samstarfi hafi verið komið á á milli þessara félaga. Tveir ungir liðsmenn Selfoss, þeir Svavar Berg Jóhannsson og Þorsteinn Daníel Þorsteinsson, voru við æfingar hjá Brentford fyrir skömmu og stóðu sig vel. „Þeir stóðu sig virkilega vel, við sáum þá í leik með 19 ára liðinu þar sem Svavar skoraði,“ segir Óskar.
Hann segir ákveðið að Brentford sendi að minnsta kosti einn leikmann til Selfyssinga fyrir næsta tímabil, Montell Moore, sem er fótfrár 19 ára miðjumaður. „Hann kemur til okkar í febrúar og við reiknum með að hann verði með okkur út tímabilið,“ segir Óskar.
Fleiri leikmenn Selfoss fara út til Brentford í desember og spila þá væntanlega eitthvað með 21 árs liði þeirra. Þá eru tveir leikmenn nýkomnir úr æfingum hjá Viking í Noregi. „Það er gott að eiga samstarf við þessa klúbba, sjá hvernig þeir starfa og við lærum af þeim og þeir af okkur,“ segir Óskar.