„Æðislegt að vera kominn aftur“

Atli Kristinsson spilaði í kvöld sinn fyrsta handboltaleik fyrir Selfoss í rúmt ár en hann hefur verið frá keppni vegna krossbandaslits í nóvember í fyrra.

Atli kom inná þegar rúmt korter var eftir af leik Selfoss og Aftureldingar. Selfyssingar áttu undir högg að sækja í seinni hálfleik þar sem fátt gladdi augað fyrir utan endurkomu Atla. Atli skoraði fimm mörk á þessum fimmtán mínútum og var markahæstur Selfyssinga í 20-24 tapi.

„Ég er ekki orðinn hundrað prósent, það vantar aðeins upp á úthaldið, en ég verð orðinn góður í lok janúar þegar mótið byrjar aftur. Það er samt ógeðslega gott að vera kominn í búninginn aftur,“ sagði Atli í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Atli lét skotin dynja á marki Aftureldingar og flest þeirra fóru í netið. „Ég var bara svona spenntur að vera kominn aftur. Kannski var ég of skotglaður, það voru nokkur skot þarna sem fóru ekki inn.“

Selfyssingar héldu í við Aftureldingu í fyrri hálfleik en heimamenn fóru illa af stað í seinni hálfleik og þar skildi á milli. „Það vantaði aðeins meiri hörku og skynsemi í okkar leik. Við gefum þeim þetta í byrjun seinni hálfleiks og mætum ekki til leiks fyrr en allt of seint. Það er erfitt að ætla að fara að sækja einhver níu mörk þannig að þetta tapast á þessum tíu eða fimmtán mínútna kafla,“ sagði Atli og viðurkenndi að kvöldið hefði verið bæði súrt og sætt.

„Þetta var samt aðallega súrt í kvöld, það er slæmt að tapa þessu þó að það sé æðislegt að vera kominn aftur.“

Fyrri greinÞórsarar langt frá sínu besta
Næsta greinTölvunni stolið frá Sovic