Selfoss vann tiltölulega öruggan sigur á Víkingum í 1. deild karla í handbolta í kvöld. Lokatölur voru 32-27 en Selfyssingar leiddu megnið af leiknum og sigurinn var öruggur.
Leikurinn fór nokkuð rólega af stað og jafnræði var með liðunum framan af. Víkingar voru fyrri til að skora en um leið og Selfyssingar komust yfir gáfu gestirnir eftir og Selfoss var með ágætt forskot í hálfleik. Skyttur Selfyssinga áttu erfitt uppdráttar í upphafi, og raunar megnið af leiknum, en Andrarnir í hornunum, Andri Hrafn Hallsson og Andri Már Sveinsson, héldu uppi heiðri liðsins og skoruðu níu af fyrstu tólf mörkum Selfoss. Þannig breyttu þeir vínrauðu stöðunni á skömmum tíma úr 8-8 í 13-9, en staðan var 18-14 í hálfleik.
Selfyssingar voru lengi í gang í seinni hálfleik og óþarfa gestrisni hleypti gestunum aftur inn í leikinn. Víkingar jöfnuðu, 22-22, þegar tæpt korter var eftir af leiknum en Gunnar Gunnarsson átti ás uppi í erminni. Hann skipti um markmann og Sebastian Alexandersson kom ískaldur inn af bekknum, lokaði markinu og varði meðal annars tvö vítaskot. Selfyssingar gengu á lagið og náðu fjögurra marka forskoti í kjölfarið, 28-24, og héldu því forskoti út leikinn. Lokatölur voru 32-27.
Andri Hrafn var markahæstur Selfyssinga með 8 mörk, Andri Már skoraði 7/3, Einar Sverrisson og Hörður Másson 4, Sverrir Pálsson 3, Atli Kristinsson og Jóhannes Snær Eiríksson 2 og þeir Jóhann Erlingsson og Ómar Helgason skoruðu sitt markið hvor.
Sverrir Andrésson varði 13/1 skot og var með 37,1% markvörslu en Sebastian Alexandersson varði 8/2 og var með 61,5% markvörslu.
Selfoss er áfram í 3. sæti deildarinnar með 21 stig og mætir næst ÍH á útivelli um næstu helgi.