Selfyssingar töpuðu 1-0 þegar þeir heimsóttu ÍA í 1. umferð 1. deildar karla í knattspyrnu í kvöld í blíðskaparveðri á Akranesi.
Fyrri hálfleikur var ákaflega tilþrifalítill og engin opin færi litu dagsins ljós. Skagamenn fengu fleiri hálffæri en komust lítið áleiðis gegn þéttri vörn Selfoss. Staðan var 0-0 í hálfleik.
Það tók Skagamenn aðeins rúma mínútu að brjóta ísinn í seinni hálfleik eftir góðan sprett frá Andra Adolphssyni sem hljóp af sér varnarmenn Selfoss hægra megin og sendi fyrir. Eftir klafs í teignum kom Garðar Gunnlaugsson aðvífandi og þrumaði boltanum í þaknetið af stuttu færi.
Á 51. mínútu bjargaði Þorsteinn Daníel Þorsteinsson á línu eftir að Bergsteinn Magnússon, markvörður Selfoss, hafði farið í skógarhlaup og tapað einvígi við Skagamann á vítateigslínunni. Tíu mínútum síðar varði Bergsteinn auðveldlega skot úr vítateignum eftir að Selfyssingar höfðu sofið á verðinum.
Svavar Berg Jóhannsson fékk svo besta færi Selfoss í leiknum á 64. mínútu þegar hann var á auðum sjó á fjærstöng og reyndi að klippa fyrirgjöf frá hægri í netið en hitti ekki boltann í galopnu færi. Svavar var aftur á ferðinni á 76. mínútu þegar hann fékk boltann óvænt í vítateignum og reyndi að pota honum framhjá markverði ÍA sem náði að koma höfðinu fyrir skotið.
Á 82. mínútu fengu Skagamenn dauðafæri eftir að Andri Adolphsson hafði leikið sér að Andy Pew og rennt boltanum á Eggert Karlsson sem var í opnu færi en skot Eggerts var víðsfjarri markinu. Selfyssingar stóluðu á þéttan varnarleik og sóknarleikur liðsins var ekki burðugur en þeir vínrauðu áttu ekki eitt skot á rammann.