Selfyssingar steinlágu gegn úrvalsdeildarliði Stjörnunnar þegar liðin mættust í 32-liða úrslitum Borgunarbikars karla í knattspyrnu í kvöld. Lokatölur urðu 6-0.
Stjörnumenn voru miklu ákveðnari í upphafi leiks og eftir fimmtán mínútna leik var staðan orðin 2-0. Eftir það róaðist leikurinn nokkuð og eina færi Selfoss kom á 30. mínútu þegar Hafþór Mar Aðalgeirsson slapp einn í gegn á móti opnu marki en varnarmaður Stjörnunnar komst fyrir skotið á síðustu stundu. 2-0 í hálfleik.
Stjarnan var mun sterkari í síðari hálfleik og heimamenn fengu tvö dauðafæri á upphafsmínútum hálfleiksins áður en þriðja markið leit dagsins ljós á 57. mínútu. Stjarnan gerði oft á tíðum harða hríð að marki Selfoss og leikurinn var endanlega afgreiddur af hálfu heimamanna með tveimur mörkum á tveggja mínútna kafla um miðjan síðari hálfleikinn.
Í stöðunni 5-0 lét Luka Jagacic reka sig af velli en hann fékk sitt annað gula spjald á 77. mínútu og einum fleiri náðu Stjörnumenn að skora eitt mark til viðbótar undir lok leiks. Sannfærandi sigur hjá Stjörnunni en bikarævintýri Selfyssinga verður ekki lengra þetta sumarið.