Selfoss og HK gerðu 1-1 jafntefli í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Selfyssingar voru sterkari aðilinn í leiknum og náðu að jafna leikinn í síðustu sókn leiksins.
HK-ingar byrjuðu betur í leiknum og komust yfir strax eftir fimm mínútur eftir klaufagang í vörn Selfoss. Eftir markið hlóðu Selfyssingar í stanslausa stórsókn þar sem leikurinn fór að mestu leyti fram á vallarhelmingi HK en færin voru þó ekki mörg. Á 25. mínútu fékk Svavar Jóhannsson loksins dauðafæri þar sem hann hamraði boltanum yfir markið einn á móti markverði. Fimm mínútum síðar björguðu Selfyssingar á línu eftir fast leikatriði heimamanna en annars voru HK menn ekki líklegir til stórræðanna í fyrri hálfleik. 1-0 í hálfleik.
Síðari hálfleikurinn var jafnari en Selfyssingar höfðu þó undirtökin lengst af. Þegar leið á leikinn þyngdist sókn Selfoss og þeir kláruðu síðustu tíu mínúturnar manni fleiri eftir að einn leikmaður HK fékk sitt annað gula spjald.
Það var ekki fyrr en í uppbótartíma að Selfyssingar náðu að jafna en markið var fyllilega verðskuldað. Magnús Ingi Einarsson skoraði þá með góðum skalla eftir sendingu frá Ágústi Erni Arnarsyni. Þetta var síðasta sókn leiksins og ekki seinna vænna fyrir Selfyssinga að fá eitthvað út úr þessum leik þar sem yfirburðir liðsins voru miklir.
Selfyssingar eru nú komnir með fjögur stig eftir fjóra leiki og sitja í 7. sæti deildarinnar. Næsti leikur liðsins er gegn Tindastóli á heimavelli á annan í hvítasunnu kl. 16.