Kvennalið Selfoss vann glæsilegan 2-3 útisigur á Breiðabliki í kvöld í Pepsi-deildinni í knattspyrnu eftir dramatískar lokamínútur.
Blikakonur mættu mjög ákveðnar til leiks og sóttu mikið framan af leiknum. Selfyssingar voru hins vegar þéttir fyrir og spiluðu yfirvegaðan varnarleik. Vörnin gaf sig þó á 26. mínútu og Blikar komust yfir, 1-0.
Síðustu fimmtán mínúturnar í fyrri hálfleik sóttu Selfyssingar í sig veðrið. Dagný Brynjarsdóttir og Erna Guðjónsdóttir komu Selfyssingum yfir með tveimur glæsilegum mörkum á tveggja mínútna kafla undir lok fyrri hálfleiks. Staðan 1-2 í hálfleik.
Selfyssingar börðust sem liðsheild í síðari hálfleik en Blikar náðu að jafna þegar fimm mínútur voru eftir. Selfyssingar gáfu samt ekkert eftir og voru staðráðnar í að sækja þrjú stig. Á lokamínútu leiksins tryggði Guðmunda Brynja Óladóttir Selfyssingum 2-3 sigur með góðu marki og Selfosskonur þar með ósigraðar í þremur deildarleikjum í röð.
Selfoss er nú í 5. sæti deildarinnar með 9 stig og mætir næst Stjörnunni á heimavelli þann 24. júní.