Selfoss tók á móti Íslandsmeisturum Stjörnunnar í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld. Lokatölur urðu 3-5 í bráðfjörugum rigningarleik.
Gunnar Borgþórsson, þjálfari Selfoss, var ekkert himinlifandi þegar sunnlenska.is ræddi við hann eftir leik. „Mér fannst lélegt hjá okkur að gefa leikinn frá okkur. Við spiluðum glimrandi vel á upphafsmínútunum en eftir að við komumst yfir þá hættum við að gera það sem við ætluðum að gera og var heldur betur refsað fyrir það. Ég er mjög óánægður með þetta. Selfoss á að geta unnið lið eins og Stjörnuna þó að Stjarnan sé með frábært lið,“ sagði Gunnar í samtali við sunnlenska.is.
Það rigndi hressilega stærstan hluta leiksins og JÁVERK-völlurinn var rennandi blautur. Slíkar aðstæður bjóða oft upp á líf og fjör þó að mistökin hafi verið fullmörg Selfossmegin á köflum.
Fyrir leikinn hafði Selfoss unnið þrjá deildarleiki í röð og þær vínrauðu mættu fullar sjálfstraust til leiks. Celeste Boureille átti hörkuskot rétt yfir á upphafsmínútunni og á 5. mínútu lét Dagný Brynjarsdóttir vaða í þverslána eftir góðan sprett og fyrirgjöf frá Evu Lind Elíasdóttur. Dagný var aftur á ferðinni tveimur mínútum síðar og nú brást henni ekki bogalistin heldur skaut hún hnitmiðuðu skoti í fjærhornið úr þröngu færi hægra megin, 1-0.
Eftir að Selfyssingar komust yfir tók við skelfilegur kafli hjá liðinu. Alexa Gaul hafði tvívegis náð að verja mjög vel áður en Stjarnan jafnaði á sextándu mínútu. Jöfnunarmarkið lá í loftinu og aðeins þremur mínútum síðar var Stjarnan komin í 1-2 eftir mark úr vítaspyrnu og Harpa Þorsteinsdóttir með bæði mörk gestanna.
Harpa slapp síðan ein innfyrir á 20. mínútu en Gaul mætti henni framarlega í vítateig Selfoss og varði vel. Hún kom hins vegar engum vörnum við á 28. mínútu þegar Selfossvörnin náði ekki að hreinsa frá og Harpa negldi inn þriðja marki sínu á tólf mínútum.
Selfossliðið var virkilega slegið út af laginu og Stjarnan lét kné fylgja kviði með fjórða marki sínu á 36. mínútu. Á þessum 25 mínútna kafla gerðu Selfyssingar Stjörnunni alltof auðvelt fyrir og gestirnir lágu í sókn.
Á lokamínútu fyrri hálfleiks svöruðu Selfyssingar loksins fyrir sig, Erna Guðjónsdóttir tók fína hornspyrnu frá vinstri og eftir mikinn barning í vítateig Stjörnunnar náði Boureille að koma knettinum í netið. Staðan 2-4 í hálfleik.
Upphafsmínútur síðari hálfleiks voru rólegar og ekkert markvert í gangi fyrr en Selfyssingar gáfu gestunum boltann á stórhættulegum stað í öftustu víglínu. Harpa fékk stungusendingu innfyrir og kláraði færið auðveldlega og markið stóð, þrátt fyrir talsverðan rangstöðufnyk. Skömmu síðar var Harpa sloppin aftur innfyrir eftir útspark frá Söndru Sigurðardóttur í marki Stjörnunnar en markadrottningin skaut hárfínt framhjá fjærstönginni.
Á 65. mínútu skoruðu Selfyssingar glæsilegt mark. Guðmunda Brynja Óladóttir fékk þá boltann á miðjum vallarhelmingi Stjörnunnar og lék á hvern varnarmanninn á fætur öðrum. Hún stakk boltanum síðan inn á Boureille sem renndi boltanum örugglega framhjá Söndru í marki Stjörnunnar.
Leikurinn róaðist nokkuð eftir þriðja mark Selfoss en Selfyssingar áttu fína spilkafla í seinni hluta síðari hálfleiks og bæði lið fengu hálffæri sem nýttust ekki. Á 89. mínútu átti Dagný skalla eftir hornspyrnu, sem Sandra varði, en frákastið barst á Guðmundur sem skaut rétt yfir. Þetta var síðasta færi leiksins og lokatölur 3-5.
Næsti leikur Selfoss er strax á föstudagskvöld en þá mætir liðið ÍBV í átta liða úrslitum bikarkeppninnar. Leikurinn er kl. 18 á JÁVERK-vellinum.