Selfyssingar töpuðu 0-2 þegar Haukar komu í heimsókn á JÁVERK-völlinn í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld.
Selfyssingar voru miklu sprækari í upphafi leiks og Magnús Ingi Einarsson og Ingvi Rafn Óskarsson voru báðir nálægt því að skora á upphafsmínútunum en áttu skot í stöng og slá. Þegar leið á fyrri hálfleikinn var jafnræði með liðunum og staðan 0-0 í hálfleik.
Bæði lið fengu hálffæri í fyrri hluta síðari hálfleiks en Haukar gerðu síðan út um leikinn meö tveimur mörkum á fjögurra mínútna kafla. Bæði mörkin voru helst til ódýr, eftir mistök miðvarða Selfoss, en Haukar höfðu ekki gert sig mjög líklega upp við mark Selfyssinga áður en þeir komust yfir.
Síðustu tíu mínútur leiksins liðu án þess að Selfyssingar næðu að skora en þeir sköpuðu helst usla í vítateig Hauka eftir föst leikatriði.
Selfyssingar hafa nú ellefu stig í 8. sæti deildarinnar og mæta næst KA á útivelli föstudaginn 11. júlí.