Selfoss tók á móti Grindavík í botnslag 1. deildar karla í knattspyrnu á JÁVERK-vellinum í kvöld. Lokatölur voru 0-0 í lengst af tíðindalitlum leik.
Fyrri hálfleikur var ákaflega rólegur, leikurinn einkenndist af baráttu úti á vellinum en Grindvíkingar náðu að skapa sér nokkur hálffæri. Selfoss átti tvö markskot í fyrri hálfleik, bjartsýnisbolta fyrir utan teig sem hvorugur fór á rammann.
Staðan var 0-0 í hálfleik og fyrstu fimmtán mínútur síðari hálfleiks voru keimlíkar fyrri hálfleiknum en liðin fengu sitthvort hálffærið.
Þegar leið á leikinn opnaðist hann hins vegar nokkuð og Selfyssingar voru líklegri til þess að skora. Á 65. mínútu fékk Haukur Ingi Gunnarsson besta færi leiksins þegar boltinn datt fyrir hann í vítateig Grindavíkur en miðjumaðurinn ungi mokaði boltanum hátt yfir markið.
Tveimur mínútum síðar slapp Einar Ottó Antonsson einn innfyrir eftir mistök í vörn Grindavíkur. Aftasti varnarmaður gestanna braut á Einari í vítateignum áður en hann náði að skjóta en Erlendur Eiríksson, dómari leiksins, sá ekki ástæðu til að dæma víti.
Selfyssingar héldu áfram að þjarma að Grindvíkingum og komust nokkrum sinnum í hættulega stöðu en inn vildi boltinn ekki. Síðustu tíu mínúturnar fjaraði leikurinn síðan út án þess að drægi til tíðinda, allt þar til í uppbótartíma. Þá small boltinn augljóslega í hendinni á Jósef Jósefssyni, fyrirliða Grindavíkur, innan vítateigs og aftur sleppti Erlendur því að dæma og flautaði til leiksloka.
Eftir leiki kvöldsins eru Selfyssingar í 10. sæti með 12 stig en Grindavík er með jafnmörg stig í 9. sæti. Mótið er nú hálfnað en næsti leikur Selfyssinga er strax á föstudag þegar Skagamenn koma í heimsókn.