Kvennalið Selfoss gerði góða ferð til Vestmannaeyja í dag og vann þar sinn fyrsta útisigur á ÍBV þegar liðin mættust í Pepsi-deildinni. Lokatölur urðu 0-3.
Leikurinn var jafn framan af og bæði lið fengu hálffæri. Á 20. mínútu skaut Dagný Brynjarsdóttir framhjá úr þröngu færi í vítateignum og átta mínútum síðar varði Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir, markvörður ÍBV, frábærlega frá Celeste Boureille sem var sloppin ein í gegn. Selfyssingar fengu hornspyrnu og úr upp úr henni björguðu Eyjakonur á línu.
Staðan var 0-0 í hálfleik en það dró til tíðinda á sjöundu mínútu síðari hálfleiks. Eva Lind Elíasdóttir átti þá góðan sprett upp hægri kantinn og sendi góða sendingu fyrir markið. Þar kom Celeste Boureille aðvífandi og skallaði boltann í netið.
Aðeins þremur mínútum síðar voru Selfyssingar komnir í 0-2. Erna Guðjónsdóttir tók þá aukaspyrnu af 40 metra færi utarlega á vellinum og boltinn sigldi framhjá öllum leikmönnunum í teignum og Bryndísi Láru í markinu og beint í netið.
ÍBV færði sig framar á völlinn eftir þetta og uppskar ágæt færi en á 71. mínútu gerði Erna endanlega út um leikinn þegar hún skoraði beint úr hornspyrnu.
Leikurinn fjaraði út undir lokin og fátt var að frétta þangað til á þriðju mínútu uppbótartíma að Erna Guðjónsdóttir fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt. Seinna spjaldið fékk hún fyrir að stökkva fyrir þegar ÍBV var að taka innkast. Afleiðingarnar af þeirri ákvörðun hennar eru þær að Erna missir af bikarleiknum gegn Fylki á fimmtudagskvöld.
Selfyssingar eru nú komnir upp í fjórða sæti deildarinnar með 19 stig.