Selfoss heimsótti Stjörnuna í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld. Þetta var annar leikur liðanna á fjórum dögum en liðin mættust í bikarúrslitunum síðastliðinn laugardag.
Stjörnukonur voru hættulegri fyrsta korterið og á 13. mínútu komust þær yfir með marki frá Marta Carissimi. Selfyssingar tóku við sér í kjölfarið og á 28. mínútu átti Guðmunda Brynja Óladóttir þrumuskot að marki sem Sandra Sigurðardóttir, markvörður Stjörnunnar varði í horn. Uppúr hornspyrnunni jafnaði Kristrún Rut Antonsdóttir svo metin með góðu skoti eftir klafs í vítateig Stjörnunnar.
Staðan var 1-1 í hálfleik og bæði lið fengu mjög góð færi á upphafsmínútum síðari hálfleiks og boltinn fór meðal annars í þverslána á Stjörnumarkinu. Þær bláu urðu þó á undan að skora en Anna Björk Kristjánsdóttir skoraði með skalla eftir hornspyrnu á 59. mínútu.
Eftir annað mark Stjörnunnar datt leikurinn svolítið niður en Stjarnan náði að innsigla sigurinn með góðu skoti frá Írunni Aradóttur úr vítateignum þegar þrjár mínútur voru eftir af leiknum. Lokatölur 3-1.
Selfoss er nú í 5. sæti Pepsi-deildarinnar með 23 stig og mætir næst Fylki á heimavelli næstkomandi mánudag kl. 18:00.