Selfyssingar unnu risasigur á Þrótturum í 1. deild karla í handbolta í kvöld þegar liðin mættust í Vallaskóla. Lokatölur urðu 41-23.
Selfyssingar höfðu forystuna allan leikinn, eftir sex mínútna leik var staðan orðin 5-2 og þegar rúmar tuttugu mínútur voru liðnar var munurinn orðinn sjö mörk, 14-7. Selfyssingar höfðu örugga forystu í hálfleik, 18-11 en Jóhann Erlingsson og Guðjón Ágústsson voru drjúgir í markaskoruninni í fyrri hálfleik. Helgi Hlynsson stóð líka fyrir sínu í markinu og var með 42% markvörslu fyrir hlé.
Það sama var uppi á teningnum í síðari hálfleik og þegar tæpar tíu mínútur voru liðnar af honum voru Selfyssingar komnir með ellefu marka forskot, 24-13. Selfossliðið sló hvergi af heldur jók forskotið jafnt og þétt svo að lokum skildu átján mörk liðin að, 41-23.
Þegar upp var staðið var Jóhann markahæstur Selfyssinga með 9 mörk, Guðjón skoraði 6 eins og Sævar Ingi Eiðsson 6, Andri Már Sveinsson og Gunnar Ingi Jónsson skoruðu báðir 5 mörk, Egidijus Mikalonis og Elvar Örn Jónsson 3, Hörður Másson 2 og þeir Gunnar Páll Júlíusson og Daníel Róbertsson skoruðu sitt markið hvor.
Helgi varði 19 skot í markinu og var með 45% markvörslu.
Selfyssinga bíður nú verðugt verkefni en næsti leikur liðsins er í bikarkeppninni á sunnudagskvöld þegar Valsmenn koma í heimsókn.