Knattspyrnukonan Dagný Brynjarsdóttir frá Hellu skrifaði í dag undir samning við þýska stórliðið Bayern Munchen.
Dagný, sem er 23 ára gömul, kemur til liðsins frá liði FSU Seminoles, en hún lék með Selfyssingum í Pepsi-deildinni í fyrrasumar.
Dagný segist spennt að hefja atvinnumannaferilinn hjá Bayern. „Mitt markmið er að þróast áfram sem leikmaður og hjálpa liðinu að ná sínum markmiðum. Ég er mjög spennt fyrir næstu sex mánuðum.“
Dagný greindi fyrst frá því að hún væri á leið til Þýskalands á sunnlenska.is á gamlársdag, eftir að hún var kosin Sunnlendingur ársins 2014.
„Þetta var eina liðið sem lofaði mér ekki að ég yrði lykilmaður. Ég valdi þetta lið til þess að þurfa að sanna mig, ég er að fara í hörkusamkeppni en það er það sem maður þarf til þess að bæta sig,“ sagði Dagný þá.
Thomas Wörle, þjálfari Bayern, var ánægður með að fá íslensku landsliðskonuna í sínar raðir.
„Dagný er mjög hæfileikarík og hættulegur sóknarmaður sem getur spilað bæði framarlega á miðjunni og sem framherji. Ég er mjög spenntur að fá að vinna með svona ungum og einörðum leikmanni,“ sagði Wörle á heimasíðu Bayern.