Kvennalið Selfoss vann frábæran sigur á gríðarsterku liði ÍBV í Olís-deild kvenna í handbolta í dag. Liðin mættust í Vallaskóla og lokatölur urðu 27-25.
„Þetta var rosalega flottur leikur og ég er ógeðslega stoltur af liðinu. Við erum loksins að leggja eitt af þessum liðum sem eru í toppbaráttunni. Það eru mikil gæði í þessu ÍBV-liði og mér fannst leikurinn í dag sýna þessar framfarir hjá Selfossliðinu sem við erum búin að vera að bíða eftir,“ sagði Sebastian Alexandersson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
Selfoss náði mest átta marka forskoti í seinni hálfleik en gaf eftir í lokin. „Já, við erum ekkert vanar því að vera í þessari stöðu, að vera átta mörkum yfir á móti svona góðu liði þannig að það varð smá panikk í lokin. En við lærum af þessu og aðalatriðið er að við náðum að landa sigri og það hjálpar okkur að díla við þessa stöðu í framhaldinu,“ sagði Sebastian sem er ánægður með spilamennsku liðsins eftir erfiða byrjun á Íslandsmótinu.
„Við lentum í brekku í upphafi móts, spiluðum illa og töpuðum leikjum. Við ræddum saman og löguðum vandamálið og það hefur verið gríðarlega mikill stígandi síðan. Ég er rosalega ánægður með svarið sem ég fæ frá liðinu eftir brekkuna,“ sagði Sebastian að lokum.
Selfosskonur mættu ákveðnar til leiks og tóku strax frumkvæðið. Eftir tíu mínútna leik var munurinn þrjú mörk, 6-3, en Selfoss jók forskotið í sex mörk fyrir leikhlé, 15-9.
Í upphafi fyrri hálfleiks léku Selfyssingar á alls oddi og munurinn varð mestur átta mörk, 19-11. Selfoss hafði gott forskot allt þar til tíu mínútur voru eftir en þá fór mistökunum að fjölga og ÍBV var skyndilega aðeins tveimur mörkum undir, 25-23, þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum.
Þrátt fyrir áhlaup ÍBV hélt Selfoss út. Perla Ruth Albertsdóttir skoraði síðasta mark Selfoss af harðfylgi þegar tvær og hálf mínúta voru eftir af leiknum og Áslaug Ýr Bragadóttir varði vel á mikilvægum augnablikum í kjölfarið. Eyjaliðið átti engin svör við baráttugleði Selfyssinga á lokakaflanum og þær vínrauðu fögnuðu innilega í leikslok.
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var markahæst Selfyssinga með 10/5 mörk, Þuríður Guðjónsdóttir og Carmen Palamariu skoruðu báðar 4 mörk, Perla Ruth 3 og þær Kristrún Steinþórsdóttir, Elena Birgisdóttir og Harpa Brynjarsdóttir skoruðu allar 2 mörk.
Áslaug Ýr varði 14/2 skot í marki Selfoss og var með 38% markvörslu.
Selfoss er nú í 8. sæti deildarinnar mð 15 stig en ÍBV er í 5. sæti með 20 stig.