Blandað lið Selfoss í hópfimleikum fullorðinna fékk hlýjar móttökur á Tryggvatorgi síðdegis í dag þegar liðið kom heim af Íslandsmótinu í hópfimleikum sem haldið var í Garðabæ um helgina.
Selfoss náði þar í sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í sögunni í gærkvöldi með því að sigra í flokki blandaðra liða. Liðið fékk fljúgandi start strax í fyrsta áhaldi og sigraði að lokum með glæsibrag.
Í dag var svo keppt til úrslita á einstökum áhöldum og þar sigraði blandað lið Selfoss í æfingum á dýnu og trampólíni, en Stjarnan sigraði í gólfæfingum.
Fjöldi fólks var samankominn við brúarsporðinn til þess að fagna liðinu. Kjartan Björnsson, formaður íþrótta- og menningarnefndar Árborgar, flutti ávarp og Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar, afhenti hópnum blóm. Að því loknu hrópuðu viðstaddir ferfalt húrra.
Þóra Þórarinsdóttir, formaður fimleikdadeildarinnar, segir að liðið sé búið að æfa stíft og lengi og keppendurnir séu að uppskera eins og þeir sá til. „Við erum ákaflega stolt af þeim. Gleymum því ekki að til þess að þess að svona árangur náist þá þurfum við góða iðkendur, góða þjálfara, öfluga foreldra, góða stuðningsmenn og dásamleg bæjarfélag – og við höfum þetta allt. Þannig að við ætlum bara að halda áfram ótrauð og vinna fleiri sigra,“ sagði Þóra.