Selfoss og Grindavík eru áfram á neðri hluta stigatöflunnar í 1. deild karla í knattspyrnu eftir 1-1 jafntefli á JÁVERK-vellinum á Selfossi í kvöld.
„Þetta var erfiður leikur en mjög áhugaverður. Fyrri hálfleikur var fínn hjá okkur en við misstum aðeins stjórnina í seinni hálfleik. Í lok dags erum við heppnir að fá eitt stig út úr leiknum eftir að hafa fengið á okkur tvær óþarfa vítaspyrnur,“ sagði Zoran Miljkovic, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
„Eftir að þeir jöfnuðu þá reyndum við að sækja til sigurs, því við vildum vinna leikinn. Ég get ekki sagt að ég sé sáttur við að fá eitt stig í dag, ég er aldrei sáttur ef við vinnum ekki. En þegar upp er staðið, eftir þessar vítaspyrnur sem þeir fengu, þá verðum við kannski að sætta okkur við þetta,“ sagði Zoran.
Selfyssingar voru ekki lengi að komast yfir. Á fyrstu mínútu leiksins fékk Maniche boltann á miðsvæðinu, skeiðaði að markinu og lét vaða fyrir utan teig og knötturinn söng í netinu. Frábært mark.
Selfoss gaf gestunum engin grið og Grindvíkingar virtust slegnir út af laginu eftir þessa góðu byrjun Selfyssinga. Selfoss pressaði stíft fyrsta korterið og átti nokkrar álitlegar sóknir sem þó vantaði að binda endahnútinn á.
Seinni hluta fyrri hálfleiks tóku Grindvíkingar hins vegar öll völd án þess þó að skapa sér teljandi færi. Staðan var 1-0 í hálfleik.
Leikurinn var í járnum fyrstu tuttugu mínútur síðari hálfleiks og mesti barningurinn fór fram á miðsvæðinu. Á 65. mínútu dró hins vegar til tíðinda, Andy Pew braut á sóknarmanni gestanna innan vítateigs og dómari leiksins dæmdi umsvifalaust vítaspyrnu.
Tomislav Misura fór á punktinn og skoraði af öryggi, 1-1. Grindvíkingar voru mun ákveðnari í kjölfarið og rúmum fimm mínútum síðar uppskáru þeir aðra vítaspyrnu. Misura fór aftur á punktinn en nú þrumaði hann boltanum í þverslána.
Selfyssingar reyndu að herða sig í sókninni á síðasta korterinu en sigurviljinn virtist meiri hjá Grindvíkingum sem pressuðu mun meira á lokakaflanum. Hvorugu liðinu tókst þó að skora og því skiptu þau með sér stigunum og sitja nú í 8.-9. sæti með 4 stig.
Markaskorarinn Maniche missir af næsta deildarleik Selfyssinga, gegn KA á útivelli, en hann fékk tvö gul spjöld á síðustu fimm mínútum leiksins og var seinna spjaldið fyrir mjög léttvægt brot.