Akureyringurinn Stefán Árnason hefur verið ráðinn þjálfari karlaliðs Selfoss í handbolta til næstu tveggja ára.
„Þetta var tækifæri sem ég gat ekki hafnað. Liðið er mjög spennandi og eru miklir möguleikar á Selfossi á næstu árum til að ná góðum árangri. Hér er magnaður efniviður, hópurinn er ungur og skemmtilegur og liðið er eingöngu skipað heimamönnum sem þekkist líklega hvergi annarsstaðar,“ segir Stefán.
Hann þekkir vel til starfs handboltans á Selfossi og hann hlakkar til að taka frekari þátt í uppbyggingunni sem framundan er. „Því var ekki annað hægt en að svara kallinu þegar mér var boðið að taka við liðinu og leggja mitt að mörkum til að frábært yngri flokka starf hér á Selfossi undanfarin tíu ár skili sér alla leið. Við viljum spila hraðann og kraftmikinn handbolta. Undirstaðan verður þéttur varnarleikur og góð markvarsla í bland við hraðaupphlaup og agaðan sóknarleik“.
Stefán er Selfyssingum að góðu kunnur, hann þjálfaði hér á árunum 2009-2013 áður en hann fór til Vestmannaeyja þar sem hann þjálfaði í tvö ár. Stefán er með BS gráðu í íþróttafræði frá HÍ.
Á Selfossi hefur Stefán náð sínum besta árangri, lið undir hans stjórn unnu fjóra Íslandsmeistartitla og tvo bikarmeistaratitla, auk þess sem hann sem hann vann Partille Cup með liði Selfoss.
Stefán er að fara að þjálfa meistaraflokk í fyrsta sinn. Í tilkynningu frá stjórn handknattleiksdeildar kemur fram að hún hafi mikla trú á Stefáni enda sé hann þekktur fyrir mikla ástríðu sem og þekkingu á íþróttinni og verður hann kærkomin viðbót í öflugt þjálfarateymi Selfoss.