Sunnlenskir íþróttamenn unnu til átta verðlauna á Smáþjóðaleikunum sem haldnir voru í Reykjavík í síðustu viku.
Þór Davíðsson, júdómaður frá Selfossi keppti í -100 kg flokki og sveitakeppni. Hann vann bronsverðlaun í sínum flokki og einnig bronsverðlaun í sveitakeppninni.
Kristinn Þór Kristinsson, Samhygð, varð annar í 1.500 m hlaupi, hljóp á 3:52,91 mín sem er nýtt HSK met í karlaflokki. Kristinn bætti inn persónulega árangur um fjórar sekúndur, en hann átti áður 3:56,89 mín. HSK metið var 3;53,43. Það var orðið 15 ára gamalt og það átti Sigurbjörn Á. Arngrímsson Umf. Laugdæla. Kristinn Þór tok einnig þátt í 800 metra hlaupi á fyrsta degi frjálsíþróttakeppninnar. Hann var þriðji á tímanum 1:58,94 mín. Aðstæður voru ekki góðar í hlaupinu, kuldi og norðanvindur sem gerði keppendum erfitt fyrir.
Agnes Erlingsdóttir Umf. Laugdæla, Fjóla Signý Hannesdóttir Umf. Selfoss og Styrmir Dan Steinunnarson Umf. Þór tóku einnig þátt í leikunum með landsliði Íslands í frjálsíþróttum. Þau stóðu sig öll mjög vel, þó þau næðu ekki að vinna til verðlauna.
Ragnar Nathanaelsson, sem er genginn til lið við Þór að nýju, var í íslenska landsliðinu í körfubolta og vann hann silfurverðlauna á leiknum með liðinu.
Fleiri Sunnlendingar tóku þátt á Smáþjóðaleikunum, en Hvergerðingar og bræðurnir Hafsteinn og Kristján Valdimarssynir voru í landsliði Íslands í blaki sem vann silfur á mótinu. Þá var Selfyssingurinn Örn Davíðsson, sem keppir fyrir FH, í landsliðinu í frjálsum og hann vann til bronsverðlauna í spjótkasti.