Selfyssingar unnu mikilvægan sigur á Fram í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld og lyftu sér þar með upp af neðri hluta stigatöflunnar.
Selfyssingar voru mun sprækari fyrstu tuttugu mínútur leiksins en náðu ekki að pota inn marki. Framarar sóttu í sig veðrið þegar leið á seinni hálfleikinn en Selfyssingar svöruðu um hæl með frábæru marki á 35. mínútu.
Luka Jagacic átti þá frábæra sendingu innfyrir á Ingþór Björgvinsson, hann vippaði boltanum snyrtilega yfir markvörð Framara og stakk sér svo sjálfur á eftir boltanum og skallaði hann í netið.
Staðan var 1-0 í hálfleik og fyrsta korterið í síðari hálfleik voru Selfyssingar líklegri til að bæta við. Ingþór var mjög sprækur í kvöld og var duglegur að koma sér í færi og á 70. mínútu stakk hann sér framfyrir varnarmann Fram og var felldur í teignum.
Dómarinn dæmdi vítaspyrnu sem Luka Jagacic nýtti af miklu öryggi, 2-0. Selfyssingar áttu góðar sóknir í kjölfar marksins en náðu ekki að skora.
Framarar bættu í sóknina á lokamínútunum og uppskáru vítaspyrnu á lokamínútu leiksins, þar sem boltinn fór líklega í hendina á varnarmanni Selfoss. Magnús Már Lúðvíksson skoraði úr vítaspyrnunni og í kjölfarið lágu Framarar þungt á Selfyssingum, en tókst ekki að jafna. Ragnar Þór Gunnarsson fékk reyndar frábært færi í blálokin til að koma Selfyssingum í 3-1 en markvörður gestanna varði vel frá honum.
Með sigrinum fer Selfoss upp í 6. sæti deildarinnar með 8 stig en HK og Haukar, sem eru í 7.-8. sæti eiga leik til góða á Selfyssinga.