Selfoss fékk Fylki í heimsókn í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld og tapaði 0-1, þrátt fyrir að hafa verið sterkari aðilinn í leiknum.
„Það vantaði viljann í liðið og að klára færin okkar. Þetta er sama sagan og í síðustu leikjum og við þurfum bara að fara að skoða hvort við þurfum að finna okkur aðra framherja í glugganum,“ sagði Gunnar Rafn Borgþórsson, hundsvekktur þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is í leikslok.
„Mér fannst við eiga fínar sóknir í fyrri hálfleik, vorum að færa boltann vel en svo vantaði betri ákvarðanatöku og ákefð inni í vítateignum. Við erum ekki að stíga framfyrir menn og viljum ekki pota í boltann, fáum dauðafæri einn á móti markmanni og það er ótrúlegt að vannýta þetta svona,“ sagði Gunnar ennfremur.
„Það er eðlilegt að tapa einhverjum leikjum en menn verða þá að tapa með sæmd og gefa allt sitt í þetta. Það er fullt af fólki á vellinum og það er ótrúlegt að menn vilji labba af vellinum eftir níutíu mínútur eftir svona frammistöðu.“
Það var mjög lítið að frétta lengst af fyrri hálfleik, leikurinn hægur og fátt um færi. Selfyssingar áttu þó mun líklegri sóknir en vantaði herslumuninn þegar þær nálguðust mark Fylkis. Fyrsta alvöru færi leiksins áttu Fylkiskonur þegar Berglind Björk Þorvaldsdóttir skaut framhjá úr galopnu færi á við markteiginn á 37. mínútu.
Staðan var 0-0 í hálfleik en Selfyssingar mættu mjög sprækir til síðari hálfleiks og þjörmuðu grimmt að Fylkisvörninni. Dagný Brynjarsdóttir átti gott skot uppúr hornspyrnu á 49. mínútu sem Eva Helgadóttir varði vel, en þremur mínútum síðar dundi ógæfan yfir.
Augnabliks einbeitingarleysi Selfyssinga varð til þess að Fylkiskonur spiluðu sig snyrtilega innfyrir vörnina og þar var Berglind Björk mætt og skoraði af öryggi.
Selfoss sótti nánast látlaust það sem eftir lifði leiks en var gjörsamlega fyrirmunað að skora. Guðmunda slapp ein í gegn á 58. mínútu en potaði boltanum rétt framhjá úr upplögðu færi og á 72. mínútu átti hún skalla í utanverða stöngina eftir frábæra fyrirgjöf Donna-Kay Henry.
Selfyssingar fengu fleiri færi á lokakaflanum og ógnuðu oft í föstum leikatriðum en Fylkisvörnin var skipulögð og stóð allar árásir Selfyssinga af sér.
Selfoss hefur aðeins náð í tvö stig í síðustu fjórum leikjum og þeirra bíður nú mikilvægur leikur í Vestmannaeyjum á mánudag. SElfoss hefur 17 stig í 4. sæti deildarinnar en ÍBV og Fylkir koma þar á eftir með 16 stig.