Elton Barros sneri aftur í lið Selfoss í dag eftir meiðsli og skoraði bæði mörk liðsins sem gerði 2-2 jafntefli við BÍ/Bolungarvík í 1. deildinni í knattspyrnu.
Leikurinn var rólegur í upphafi en á 17. mínútu komust Selfyssingar yfir þegar Jordan Edridge renndi boltanum á Barros sem slapp einn í gegn og skoraði.
Djúpmenn sóttu í sig veðrið eftir þetta og áttu tvö hálffæri áður en þeir jöfnuðu á 36. mínútu. Þar var að verki Pape Faye eftir klafs í vítateig Selfoss. Staðan var 1-1 í hálfleik.
Þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik komust heimamenn yfir og aftur var Pape þar að verki eftir að hafa komist einn í gegn.
Pressa Selfyssinga jókst eftir því sem leið á seinni hálfleikinn og þeir uppskáru svo sanngjarnt jöfnunarmark á 86. mínútu. Boltinn barst þá fyrir mark Djúpmanna og Barros kom þar aðvífandi og skallaði boltann í netið.
Lokatölur 2-2 og Selfyssingar halda þar með BÍ/Bolungarvík frá sér á töflunni, en BÍ/Bol er í botnsætinu með 5 stig á meðan Selfyssingar eru í 9. sæti með 13 stig.