Eftir fjóra deildarleiki í röð án sigurs náðu Selfyssingar loksins vopnum sínum aftur í Pepsi-deild kvenna og unnu góðan sigur á ÍBV á útivelli í kvöld, 0-2.
Gunnar Borgþórsson, þjálfari Selfoss, kvartaði yfir markaleysi sóknarmanna sinna eftir síðasta leik og þær Donna-Kay Henry og Dagný Brynjarsdóttir svöruðu kallinu í kvöld og tryggðu Selfyssingum sigur. Chante Sandiford átti líka mjög góðan leik í marki Selfoss og greip vel inn í leikinn þegar á þurfti að halda.
„Við fengum fjögur góð færi og skorum úr tveimur. Allir leikir á móti ÍBV eru ótrúlega jafnir, þetta eru áþekk lið en í kjölfarið á því að við skorum fyrsta markið þá náum við yfirhöndinni,“ sagði Gunnar í viðtali við fotbolti.net eftir leik.
Eyjakonur höfðu frumkvæðið í fyrri hálfleik en bæði lið fengu sín færi. Það var svo á 30. mínútu að Henry tók málin í sínar hendur, sólaði nánast allt ÍBV liðið uppúr skónum og renndi boltanum svo framhjá Bryndísi Láru Hrafnkelsdóttur í marki ÍBV.
Markið sló Eyjakonur útaf laginu og í kjölfarið var leikurinn í nokkuð öruggum höndum Selfyssinga.
Dagný átti skalla í stöng snemma í seinni hálfleik en á 62. mínútu tókst henni að koma knettinum í netið. Hún fékk þá góða sendingu innfyrir og átti ekki í neinum erfiðleikum með að skora framhjá Bryndísi.
Selfyssingar áttu ágæt færi á lokakaflanum en mörkin urðu ekki fleiri og Selfossliðið sigldi sigrinum heim. Með sigrinum lyfti liðið sér aftur upp í 3. sæti deildarinnar með 20 stig.