Selfyssingar fengu 4-0 skell þegar þeir heimsóttu HK í knattspyrnuhöllina Kórinn í Kópavogi í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld.
„Við fengum á okkur þrjú gríðarlega ódýr mörk. Uppleggið í leiknum klikkaði og menn voru ekki að gera það sem við ætluðum að gera. Þegar við vorum ekki með boltann þá voru menn ekki alveg að nenna þessu,“ sagði Gunnar Rafn Borgþórsson, þjálfari Selfoss, í samtali við fotbolti.net eftir leik.
Þrátt fyrir að hafa verið sterkari aðilinn í fyrri hálfleik fengu Selfyssingar þrjú mörk á sig í hálfleiknum, án þess að ná sjálfir að skora.
Strax á 6. mínútu komust HK menn yfir með skallamarki úr aukaspyrnu í sinni fyrstu sókn. Selfyssingar héldu áfram að reyna og fengu nokkur hálffæri en á 28. mínútu fengu HK menn vítaspyrnu uppúr hornspyrnu og enginn á vellinum virtist vita á hvað var dæmt. HK komst í 2-0 úr vítaspyrnunni og tíu mínútum síðar fengu Selfyssingar þriðja markið í bakið eftir snarpa sókn HK. 3-0 í hálfleik.
Fyrstu fimmtán mínútur síðari hálfleiks hélt sókn Selfyssinga áfram en á 63. mínútu skoruðu heimamenn sitt fjórða mark úr skyndisókn.
Ástandið batnaði ekki fyrir Selfoss á 73. mínútu þegar Ragnar Þór Gunnarsson fékk beint rautt spjald fyrir munnsöfnuð eftir að dómarinn sleppti því að gefa Selfyssingum aukaspyrnu. „Klárlega rautt spjald,“ sagði Gunnar Selfossþjálfari í viðtalinu við fotbolti.net.
Leikurinn fjaraði út eftir þetta en bæði lið fengu þó prýðileg færi á lokakaflanum, án þess að mörkin yrðu fleiri og sigursöngur Selfoss fékk ekki að hljóma í Kórnum.
Selfoss er áfram í 9. sæti deildarinnar með 13 stig og mætir næst Víkingi Ólafsvík á Selfossvelli þann 29. júlí.