Stjarnan refsaði Selfyssingum grimmilega fyrir varnarmistök í seinni hálfleik þegar liðin mættust í Pepsi-deild kvenna á JÁVERK-vellinum á Selfossi í kvöld. Lokatölur urðu 1-3.
„Fyrri hálfleikurinn var frábær. Ótrúlega vel spilaður hjá báðum liðum. Það dró hins vegar af báðum liðum í seinni hálfleik en það sem skildi á milli var að við gáfum þeim tvö mörk,“ sagði Gunnar Rafn Borgþórsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leikinn.
„Þetta var erfiður leikur og við vorum þreyttar í lokin eftir mikla törn og Stjarnan kannski leysti betur úr því þegar leið á. Við vorum ekki nógu klókar og náðum ekki alveg nógu vel að halda boltanum og hvíla okkur með boltann, vorum mikið að sparka frá okkur og reyna erfiðu leiðina. Eftir að við fengum annað markið á okkur þá var eins og við misstum aðeins trúna á þessu,“ sagði Gunnar ennfremur.
Stjarnan sótti meira í upphafi leiks en Selfyssingar áttu þó hættulegri færi í upphafi. Eva Lind Elíasdóttir átti skalla rétt framhjá á 11. mínútu en fimm mínútum síðar náði Donna-Kay Henry að koma knettinum í netið.
Stjörnukonur hreinsuðu frá marki eftir hornspyrnu og boltinn barst út á Ernu Guðjónsdóttur sem snaraði honum aftur inn í vítateiginn þar sem varnarmenn Stjörnunnar höfðu gleymt Henry. Hún var á auðum sjó og kom knettinum af harðfylgi framhjá Söndru Stjörnumarkmanni.
Selfyssingar voru ákveðnari í kjölfar marksins án þess þó að skapa sér færi. Hinu megin á vellinum átti Anna Björk Kristjánsdóttir skalla í þverslá á 24. mínútu og fimm mínútum síðar jafnaði Ásgerður Baldursdóttir metin fyrir Stjörnuna eftir laglega sókn.
Staðan var 1-1 í leikhléi en í seinni hálfleik réðu Stjörnukonur lögum og lofum. Þær fengu þó ekki mörg færi en skoruðu þrátt fyrir það tvö mörk eftir algjöra gjafmildi Selfyssinga. Harpa Þorsteinsdóttir skoraði á 60. og 68. mínútu og þurfti lítið að hafa fyrir hlutunum í bæði skiptin þegar boltinn datt fyrir fætur hennar í vítateignum eftir samskiptaleysi í vörn Selfoss.
Selfoss hefur átt góða spretti undir lok leikja í sumar og sýnt að liðið er í fínu formi. Það vantaði hins vegar kraftinn í lok leiksins í kvöld og Stjörnuvörnin átti ekki í miklum vandræðum þegar Selfyssingar reyndu að rétta úr kútnum í lokin.
Selfossliðið hefur nú endanlega stimplað sig út úr toppbaráttu deildarinnar og er í þéttum pakka liðanna í 3. til 7. sæti. Selfoss er í 5. sæti með 20 stig, einu stigi frá Þór/KA í 3. sætinu.