Selfoss tapaði 0-4 þegar KA kom í heimsókn á JÁVERK-völlinn í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Þetta var fjórða tap Selfoss í röð en liðið hefur ekki skorað mark í síðustu fjórum leikjum og fengið á sig fimmtán mörk.
„Við erum búnir að vera að reyna að þétta liðið og efla sjálftraustið, ég held að það sé aðalatriðið. Þessi mörk sem við fáum á okkur í síðustu þremur leikjum eru mörk sem við erum að gefa andstæðingum okkar. Mörk sem á að vera auðvelt að koma í veg fyrir,“ sagði Gunnar Borgþórsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
„Við erum ekki að ná að skapa okkur færi en mér fannst reyndar seinni hálfleikurinn í þessum leik vera fyrsti hálfleikurinn að undanförnu þar sem er einhver „gredda“ í mannskapnum. Við vorum nálægt þeim og vorum að pressa, komumst upp á síðasta þriðjung vallarins, náðum fyrirgjöfum og komumst meira að segja í færi og auðvitað þurfum við að nýta það,“ sagði Gunnar en hann gaf ungum heimamönnum tækifæri á að láta ljós sitt skína í kvöld.
„Ungu strákarnir okkar voru allir inn á í lokin og sýndu hjarta. Það er kannski það sem hefur vantað að undanförnu. En menn verða þá að sýna þeim þolinmæði og skilning, það sýndi sig líka að það er reynsluleysi hjá þeim en við þurfum að byggja eitthvað upp hérna,“ sagði Gunnar.
Selfoss á sex leiki eftir og Gunnar lítur á lokakaflann sem nýtt mót þar sem liðið þarf að ná í níu stig. „Það er okkar markmið núna. Við þurfum að spila betur og leggja okkur fram og tína stig. Við ætluðum að fá stig hérna í dag og héldum að uppleggið hefði verið gott en við skorum sjálfsmark á fyrstu tíu mínútunum og þá varð þetta erfitt í kjölfarið.“
KA átti fyrri hálfleikinn
Selfyssingar voru slakir í fyrri hálfleik og létu gestina líta frábærlega út. KA-menn eru með mjög vel mannað lið og þeir léku á alls oddi í plássinu sem Selfyssingar gáfu þeim.
Strax á 8. mínútu komust gestirnir yfir, Selfyssingum gekk illa að hreinsa frá eftir hornspyrnu og klafsið í vítateignum endaði með því að Einar Ottó Antonsson rak fótinn í boltann og rúllaði honum í eigið net.
KA-menn héldu áfram að sækja en það er skemmst frá því að segja að Selfoss fékk engin færi í fyrri hálfleik. Á 27. mínútu var brotið á Einari Ottó fyrir utan vítateig Selfoss en dómarinn dæmdi Einar hins vegar brotlegan. Glórulaus ákvörðun en úr aukaspyrnunnni skoraði Jóhann Helgason með glæsilegu skoti upp í samskeytin.
Sex mínútum síðar opnaðist vörn Selfyssinga illa og Ben Everson lyfti boltanum snyrtilega yfir Vigni Jóhannesson sem mætti honum í vítateignum. Þrjú núll!
Ungu heimamennirnir stóðu fyrir sínu
Seinni hálfleikur byrjaði rólega og var tíðindalítill fyrstu 25 mínúturnar. Úrslitin virtust svotil ráðin og KA menn tóku lífinu nokkuð létt. Selfyssingar hresstust hins vegar nokkuð, áttu fínar sóknir inn á milli og sköpuðu sér nokkur ágæt færi á lokakaflanum.
KA gerði hins vegar endanlega út um leikinn á 88. mínút þegar varamaðurinn Juraj Grizelj fékk góða sendingu innfyrir og hamraði boltann upp í þaknetið úr þröngu færi. Lokatölur 0-4.
Það eina sem gladdi heimamenn var að ungu leikmennirnir í hópnum fengu tækifæri í kvöld, Arnar Logi Sveinsson, Richard Sæþór Sigurðsson og Sindri Pálmason voru allir í byrjunarliðinu og Haukur Ingi Gunnarsson kom inná á lokakaflanum. Þeir komust allir ágætlega frá sínu, sérstaklega Arnar Logi sem átti fínan leik á miðjunni og lét finna vel fyrir sér.
Næsti leikur Selfoss er gegn Fram á útivelli á þriðjudagskvöld. Fram og Grótta skildu jöfn í kvöld, 0-0, þannig að Selfoss er áfram í 10. sæti deildarinnar með 13 stig en Grótta er þar fyrir neðan í fallsæti með 12 stig. Fram hefur 17 stig í 9. sæti.