Selfyssingar voru grátlega nálægt því að tryggja sér fyrsta stóra titil félagsins í knattspyrnu í dag en kvennalið Selfoss tapaði 2-1 í úrslitaleik bikarkeppninnar gegn Stjörnunni.
„Við höfðum þetta í hendi okkar, þetta var okkar leikur. Við spiluðum vel í 80 mínútur en svo hrundi þetta á síðustu tíu mínútunum. Við náðum ekki að losa boltann eftir hornspyrnur og þær voru hreint úr sagt heppnar að ná að pota boltanum tvívegis í netið,“ sagði markaskorari Selfoss, Donna-Kay Henry, í samtali við sunnlenska.is.
Hún kom Selfyssingum yfir með frábæru marki og fagnaði innilega. „Já, ég var svolítið æst. Ég var búin að ákveða það fyrir leik að ef ég myndi skora þá myndi ég rífa mig úr treyjunni og hlaupa fagnandi um völlinn. Þetta var gullfalleg sending frá Evu Lind og ég hitti boltann vel.“
„Þó að við höfum ekki unnið leikinn þá var þetta frábær reynsla. Við spiluðum mjög vel og andrúmsloftið var frábært. Stuðningsmenn Selfoss eru þeir bestu í heimi og ég er svo glöð yfir því að vera að spila með þessu frábæra félagi,“ sagði Donna-Kay að lokum.
Selfyssingar höfðu góð tök á leiknum í fyrri hálfleik og fékk nokkur ágæt færi á meðan Stjörnukonur náðu lítið að ógna. Fyrri hálfleikur var þó markalaus en Selfyssingar með yfirhöndina.
Dæmið snerist við í seinni hálfleik, Stjarnan var meira með boltann en Selfyssingar vörðust vel. Fyrsta almennilega sókn Selfoss í síðari hálfleik kom á 62. mínútu og þar gekk allt upp. Eva Lind Elíasdóttir átti þá frábæra sendingu innfyrir á Donna-Kay Henry sem tók vel á móti boltanum og þrumaði honum í markið.
Stjarnan sótti látlaust í kjölfarið en Chanté Sandiford var öryggið uppmálað í markinu og varði vel í tvígang. Selfoss átti tvö hálffæri í kjölfarið en þegar leið á leikinn féllu Selfyssingar aftar á völlinn og Stjarnan skoraði tvö mörk uppúr hornspyrnum.
Á 81. mínútu skallaði Poliana boltann að marki og í netið fór hann með viðkomu í Thelmu Björk Einarsdóttur. Sjö mínútum síðar datt boltinn fyrir tærnar á Hörpu Þorsteinsdóttur sem skoraði auðveldlega.
Selfyssingar náðu ekki að nýta síðustu mínúturnar til að jafna og Stjarnan var nær því að bæta við. Þær bláklæddu fögnuðu því sigri annað árið í röð á meðan Selfoss þarf að gera sér silfrið að góðu.
Eins og í fyrra áttu Selfyssingar stúkuna en Stjörnumenn létu líka vel í sér heyra þannig að andrúmsloftið á vellinum var frábært. Áhorfendum tókst líka að slá aðsóknarmetið en 2.435 áhorfendur voru á vellinum og hafa aldrei verið fleiri á bikarúrslitaleik.