Selfoss byrjar vel í Olís-deildinni

Carmen Palamariu skoraði 5 mörk fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Olís-deild kvenna í handbolta hófst í dag en Selfoss sótti Hauka heim að Ásvöllum. Selfoss sigraði 24-26 eftir hörkuleik og vann þar sinn fyrsta útisigur á þessum sterka heimavelli Hauka.

Haukar komust í 4-0 í upphafi leiks og Selfoss skoraði ekki fyrr en eftir níu mínútur. Þegar leið á fyrri hálfleikinn komst Selfoss betur inn í leikinn og minnkaði muninn í 9-8 þegar fimm mínútur voru til hálfleiks. Haukar skoruðu hins vegar fimm mörk gegn tveimur á síðustu fimm mínútunum og leiddu 14-10 í hálfleik.

Það blés ekki byrlega fyrir Selfyssingum í upphafi seinni hálfleiks því Haukar náðu sex marka forskoti, 16-10. Þá kviknaði heldur betur á Selfossliðinu, þær jöfnuðu 19-19 en þá voru átta mínútur eftir af leiknum. Lokamínúturnar voru æsispennandi en Selfyssingar voru sterkari á lokakaflanum og sigruðu að lokum með tveimur mörkum, 24-26.

Carmen Palamariu var markahæst Selfyssinga með 9 mörk, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir skoraði 7, Elena Birgisdóttir og Adina Ghidoarca 3, Margrét Katrín Jónsdóttir 2 og þær Hulda Dís Þrastardóttir og Perla Ruth Albertsdóttir skoruðu sitt markið hvor.

Fyrri greinÚrslitaleikur framundan hjá Ægi
Næsta greinTelur ferðamátann hættulegan vegna aksturslagsins