Selfoss vann öruggan sigur á HK í 1. deild karla í handbolta í kvöld, 30-24 í Vallaskóla. Á sama tíma tapaði Mílan 28-18 fyrir Stjörnunni á útivelli.
„Ég var mjög ánægður með strákana í kvöld. Við fundum gleðina í vikunni, sem hefur kannski aðeins vantað framan af mótinu. Ég held að við höfum spilað okkar besta leik til þessa í kvöld,“ sagði Stefán Árnason, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
„Við köfuðum bara djúpt og ákváðum að halda áfram þrátt fyrir tap í síðustu umferð gegn Fjölni. Menn voru að vinna vel á milli leikja. Við fundum leikgleðina saman og strákarnir stigu upp og tóku ábyrgð sjálfir. Það er gaman að stýra liði sem er svona á vellinum og ég held að það sé gaman að vera í svona liði. Við getum nýtt okkur þetta í kjölfarið því svona spilar liðið best,“ sagði Stefán ennfremur.
„Við vorum með þennan leik allan tímann og þó að við værum á miklum snúning þá var hausinn alltaf tær og klókindi í okkar leik. Við fundum alltaf lausnir og sigldum þessu mjög örugglega heim.“
Leikur Selfoss og HK var jafn fyrsta korterið en þá breyttu Selfyssingar stöðunni úr 6-6 í 9-7. Munurinn var þrjú mörk í hálfleik, 15-12.
Selfoss jók forskotið í upphafi síðari hálfleiks og sigurinn var aldrei í hættu. Leikgleðin var ríkjandi og gaman að fylgjast með liðinu í þessum ham. Munurinn hélst í fimm mörkum stærstan hluta seinni hálfleiks og Selfyssingar gátu andað rólega undir lokin.
Alexander Egan var markahæstur Selfyssinga með 6 mörk, Hergeir Grímsson, Teitur Örn Einarsson og Egidijus Mikalonis skoruðu allir 4, Örn Þrastarson 4/4, Árni Geir Hilmarsson 3, Andri Már Sveinsson 2 og þeir Árni Guðmundsson, Rúnar Hjálmarsson og Guðjón Ágústsson skoruðu 1 mark hver.
Birkir Fannar Bragason varði 19 (50%) skot í marki Selfoss og Helgi Hlynsson varði 2/1 (33%). Þá verður að geta framlags Rúnars Hjálmarssonar í vörninni en hann var með fimmtán brotin fríköst og lét HK-inga ekki komast upp með neinn moðreyk.
Mílan tapaði í toppslagnum
Mílan tapaði 28-18 gegn Stjörnunni í uppgjöri toppliðanna. Stjarnan leiddi frá upphafi, komst í 3-0 og staðan var 8-3 þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður. Munurinn var orðinn sjö mörk í hálfleik, 14-7.
Í síðari hálfleik hélst munurinn í kringum tíu mörk lengst af en Mílan náði að minnka muninn í sjö mörk þegar tíu mínútur voru eftir, 24-17. Nær komust þeir grænklæddu ekki og Stjarnan sigraði örugglega.
Gunnar Ingi Jónsson var markahæstur hjá Mílunni með 6/4 mörk. Atli Kristinsson skoraði 3, Sævar Ingi Eiðsson, Ársæll Ársælsson og Jóhannes Snær Eiríksson 2 og þeir Magnús Már Magnússon, Sigurður Már Guðmundsson og Gunnar Páll Júlíusson skoruðu allir eitt mark.
Ástgeir Sigmarsson varði 10 (40%) skot í marki Mílunnar og Sverrir Andrésson varði 8 (35%).