Handboltakonan Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir og taekwondomaðurinn Daníel Jens Pétursson, bæði úr Umf. Selfoss, voru útnefnd íþróttafólk ársins í Sveitarfélaginu Árborg á uppskeruhátíð íþrótta- og menningarnefndar í kvöld.
Athöfnin fór fram í hátíðarsal FSu og var fjölmenn að vanda.
Hrafnhildur Hanna hefur náð frábærum árangri í ár og spilað sig upp í að verða lykilmanneskja í A-landsliði Íslands. Á árinu hefur hún spilað ellefu landsleiki og skorað í þeim þrjátíu mörk, þar af fjóra leiki í undankeppni HM og EM. Hanna spilar lykilhlutverk í meistaraflokki Selfoss í Olísdeildinni og er markahæsti leikmaður deildarinnar það sem af er þessu keppnistímabili og ein af allra sterkustu leikmönnum deildarinnar. Í vor var hún ein af þremur leikmönnum sem komu til greina sem leikmaður ársins á keppnistímabilinu 2014-2015. Þá var hún markahæsti leikmaður Olísdeildarinnar og kjörin leikmaður ársins hjá meistaraflokki Selfoss.
Hanna hlaut 230 stig í kjörinu, knattspyrnukonan Guðmunda Brynja Óladóttir, Umf. Selfoss, varð önnur með 136 stig og fimleikakonan Margrét Lúðvígsdóttir, Umf. Selfoss, þriðja með 103 stig.
Daníel Jens varði Norðurlandameistaratitil sinn á NM í Noregi 2015 og vann alla bardagana sína með miklum mun. Hann náði einnig góðum árangri á fleiri mótum á erlendri grundu, í Austurríki, Noregi, Svíþjóð og Króatíu en á mótinu í Króatíu var hann valinn besti karlkeppandinn. Innanlands vann hann gullverðlaun á Alþjóðlegu Reykjavíkurleikunum og varð annar í sínum flokki á Íslandsmótinu. Daníel hefur náð frábærum árangri og góðum bata þrátt fyrir að hafa slitið krossband fyrir aðeins tveimur árum. Hann er að auki yfirþjálfari taekwondodeildar Umf. Selfoss og undir hans stjórn hefur deildin vaxið stöðugt.
Kosningin var jafnari hjá körlunum en Daníel sigraði með 136 stig, handknattleiksmaðurinn Elvar Örn Jónsson, Umf. Selfoss, varð annar með 116 stig og jafnir í 3.-4. sæti voru körfuknattleiksmaðurinn Ari Gylfason, FSu og júdómaðurinn Grímur Ívarsson, Umf. Selfoss með 100 stig. Þetta er annað árið í röð sem Daníel hlýtur þennan titil.
Á hátíðinni voru einnig verðlaunaðir Íslands-, Norðurlanda-, deildar- og bikarmeistarar úr röðum íþróttafélaga í Árborg, en alls voru það 59 lið og einstaklingar sem kræktu sum hver í marga titla á árinu.
Körfuknattleiksfélag FSu fékk hvatningarverðlaun íþrótta- og menningarnefndar og hlaupahópurinn Frískir Flóamenn fékk einnig sérstaka viðurkenningu. Það sama átti við um Stokkseyringinn Björgvin Karl Guðmundsson sem náði frábærum árangri í CrossFit og ólympískum lyftingum á árinu og varð meðal annars í 3. sæti á Heimsleikunum í CrossFit.
Einnig fékk fjöldi íþróttamanna styrki úr afreks- og styktarsjóðum íþróttafélaganna og Árborgar, en Íþróttafélagið Suðri, Golfklúbbur Selfoss, Körfuknattleiksfélag FSu og Ungmennafélag Selfoss veita árlega styrki úr þessum sjóðum.
Til þess að létta stemmninguna steig svo knattspyrnumaðurinn Guðmundur Þórarinsson, leikmaður Nordsjælland, tvívegis á stokk með gítarinn og flutti tónlist úr ýmsum áttum við góðar undirtektir.